22. mar. 2013

Samningar um sóknaráætlanir landshluta undirritaðir

  • KarlBj

Í hádeginu í dag, föstudaginn 22. mars, undirrituðu Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra og fulltrúar landshlutasamtaka samning um sóknaráætlanir landshluta. Með undirritun samninganna er brotið blað í sögu samskipta landshlutasamtakanna við Stjórnarráðið þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna til einstakra verkefna innan landshluta.

Við undirritunina fluttu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga ávörp en einnig sögðu fulltrúar landshlutasamtaka frá sinni sýn á verkefnið.

Löngunin til að bæta vinnubrögð okkar Íslendinga í áætlanagerð, og taka upp alvöru samráð við heimamenn um land allt við gerð byggðaáætlana, var sterk hjá upphafsmönnum verkefnisins. Byggðaáætlanir, sem grunvallaðar eru á forgangsröðun þeirra verkefna sem heimamenn í héraði telja mikilvægust, er sá undirliggjandi hvati sem hefur fyllt okkur styrk og áræði, sem höfum unnið að framgangi málsins.

Hér að ofan má sjá stutta tilvitnun í ræðu Karls Björnssonar en hann sagði einnig að margir hafi verið tortryggnir og neikvæðir í garð verkefnisins í fyrstu og höfðu jafnvel ástæðu til þess. Margar áætlanir hafi verið gerðar en þær ekki gengið eftir þar sem fjármagn hafi oftast ekki fylgt. Þær áætlanir voru aðeins orð á blaði, orð án athafna. En viðhorfsbreyting hefur átt sér stað hjá þeim sem að málinu hafa komið, þingmönnum, ráðherrum og starfsmönnum ríkisins í ráðuneytum og stofnunum. Nú hefur miðstýringin breyst í dreifstýringu, lýðræðið hefur sigrað. Karl sagði ennfremur:

Heildarstefnumörkunin og stóru markmiðin verða að sjálfsögðu áfram sameiginleg öllum og mótuð á landsgrundvelli, en útfærslan verður heimamanna. Þeim er vel treystandi til þess. Það hafa þeir almennt sýnt fram til þessa. Sveitarstjórnarmenn skynja betur en aðrir þarfir nærsamfélagsins og það er þeirra hlutverk að hlúa að því samfélagi með útsjónarsemi, vönduðum og hlutlægum vinnubrögðum og síðast en ekki síst, ástríðu til að þjóna nærsamfélaginu eins vel og kostur er hverju sinni. Treystum þeim áfram til góðra verka og styðjum þá með því að efla hlutverk og áhrif sóknaráætlana landshluta.


Í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að með samningunum sé staðfest nýtt verklag sem einfaldar þessi samskipti, gerir þau skilvirkari og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna. Markmiðið er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Í fyrstu eru verkefnin sem falla undir sóknaráætlanirnar tengd atvinnumálum og nýsköpun, markaðsmálum, menntamálum og menningarmálum. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að aðrir þættir byggðamála á borð við velferðarmál og þróun innviða falli undir sama verklag.

Stjórnarráðið hefur sett upp sérstaka heimasíðu sóknaráætlana þar sem m.a. má sjá hvaða verkefni er verið að vinna í landshlutunum átta.


Landshlutafulltruar

Fulltrúar landshlutasamtakanna ásamt Katrínu Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsráðherra.


SkrifadUndir

Skrifað undir samningana.

Radherrar

Fjórir ráðherrar úr ríkisstjórninni voru viðstaddir undirritunina, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson velferðarráðherra og Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, sem undirritaði samningana fyrir hönd ríkisins.

KarlBj

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, í ræðustól.