27. des. 2012

Tillaga að nýjum stjórnarskrárákvæðum um stöðu sveitarfélaga - umsögn sambandsins

  • Althingi_300x300p


Sambandið hefur sent umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um þá þætti í frumvarpi til stjórnskipunarlaga er varða stjórnskipulega stöðu sveitarfélaga. Umsögnin fjallar aðallega um VII. kafla frumvarpsins og álitaefni sem snúa að 2. gr. þess.

Að mati sambandsins felur sá kafli í frumvarpinu, er fjallar um sveitarfélögin, í sér jákvæðar breytingar og er hann til þess fallinn að styrkja stjórnskipulega stöðu sveitarstjórnarstigsins. Sérstaklega er vikið að nýmælum sem fram koma í 105. - 108. gr. frumvarpsins. Meðal annars er svonefnd nálægðarregla innleidd í 106. gr. frumvarpsins og kveðið á um það í 108. gr. að við undirbúning laga sem varða málefni sveitarfélaga skuli hafa samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra. Telur sambandið að ljóst að þessar tvær greinar séu til þess fallnar að styrkja sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga í sessi.

Sambandið gerir ekki athugasemd við efni 107. gr. sem fjallar um íbúalýðræði þar sem sú grein felur ekki í sér verulega breytingar frá gildandi lagaumhverfi. Á hinn bóginn er bent á að orðalag 105. gr. geti að óbreyttu gefið til kynna vilja til þess að þvinga fram sameiningu sveitarfélaga. Er í umsögninni lagt til að kveðið verði skýrt á um það í nefndaráliti að ekki beri að túlka umrædda grein þannig að í henni felist fyrirmæli um að fámennum sveitarfélögum beri að sameinast öðrum.

Ennfremur er lagt til að skoðað verði við meðferð þingsins á málinu hvernig hugtakið „stjórnvöld“ er skilgreint í skilningi stjórnarskrár. Samkvæmt almennum málskilningi nær hugtakið bæði til stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga og því mikilvægt að stjórnarskrárákvæði um skyldur stjórnvalda séu skýrar. Í umsögninni er til dæmis bent á að stjórnarskrárákvæði um ríkisábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum geti skv. efni sínu einungis tekið til stjórvalda ríkisins. Umorða beri því fyrirliggjandi tillögu að 72. gr. frumvarpsins.

Í umsögninni kemur ennfremur fram að sambandið muni áfram vinna að rýni frumvarpsins og skila ábendingum til Alþingis um aðrar efnisgreinar sem hafa mikil áhrif á sveitarfélögin. Sérstaklega eru þar nefnd til sögunnar ákvæði um menntun og félagsleg réttindi, auk náttúru landsins og umhverfis, m.a. með tilliti til upplýsingaréttar. Slíkar umsagnir og ábendingar verða birtar á vef sambandsins um leið og þær verða senda til þingsins, en reiknað er með að yfirferð frumvarpsins ljúki á fyrstu vikum nýs árs.