20. des. 2012

Lagabreytingar samþykktar á Alþingi

  • Althingi_300x300p


Athygli sveitarfélaga er vakin á því að eftirtaldar lagabreytingar voru samþykktar á Alþingi í gær, 19. desember 2012:

Breyting á sveitarstjórnarlögum (gildistími samþykkta sveitarstjórna)

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 áttu eldri samþykktir um stjórn og fundasköp að falla úr gildi 1. janúar 2013. Sá frestur hefur nú verið lengdur til 30. júní 2013. Ástæðan er sá dráttur sem varð á að ljúka gerð fyrirmyndar innanríkisráðuneytisins að samþykktum fyrir sveitarfélög.

Breyting á lögum um gatnagerðargjald (gildistími bráðabirgðaákvæðis um álagningu B-gatnagerðargjalds)

Heimild til þess að leggja á svonefnt B-gatnagerðargjald átti samkvæmt bráðabirgðaákvæði að renna út 31. desember 2012. Gildistími bráðabirgðaákvæðisins hefur nú verið framlengdur til 31. desember 2015. Sveitarfélög sem enn eiga eftir að ljúka framkvæmdum við lagningu bundins slitlags og frágang eldri gatna fá því svigrúm til að ljúka þessum framkvæmdum á næstu þremur árum og leggja B-gatnagerðargjald á húseigendur þar sem það á við.

Breyting á skipulagslögum (auglýsing deiliskipulags og deiliskipulagsbreytinga)

Frestur samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 til að birta deiliskipulag er lengdur úr þremur mánuðum í 12 mánuði. Umræddur þriggja mánaða frestur hefur valdið vandkvæðum og í einhverjum tilvikum leitt til þess að deiliskipulag telst ógilt. Með lagabreytingunni er brugðist við því ástandi en sveitarfélögum er hins vegar bent á að Skipulagsstofnun sendi öllum sveitarfélögum leiðbeiningar þann 9. nóv. 2012, þar sem vakin var athygli á tímafrestum í skipulagslögum hvað varðar birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Það var gert í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 34/2012 í máli nr. 80/2011 sem finna má á www.usb.is.
 
Af gefnu tilefni vill Skipulagsstofnun árétta að tímafrestir í skipulagslögum nr. 123/2012, sbr. 2. mgr. 42. gr., eiga einnig við um deiliskipulag þar sem málsmeðferð hófst skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 en var ólokið við gildistöku nýrra skipulagslaga 1. janúar 2011.
 
Í framangreindu bréfi Skipulagsstofnunar var vísað í úrskurð  úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála um deiliskipulag Lambastaðahverfis á Seltjarnarnesi og í bréfi stofnunarinnar stóð m.a. eftirfarandi:
 

„Ef meira en þrír mánuðir liðu frá  samþykkt sveitarstjórnar þar til auglýsing birtist í B-deild Stjórnartíðinda telst viðkomandi deiliskipulag ógilt og óheimilt er að veita byggingar- eða framkvæmdaleyfi á grundvelli þess.“ 

Meðfylgjandi var listi yfir deiliskipulag sem skv. skjalasafni Skipulagsstofnunar hafði tekið gildi 2011 og fram að miðjum okt. 2012, og voru sveitarfélögin beðin að yfirfara dagsetningar á honum og senda stofnunni fyrir 1. des. 2012.
 
Í bréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að borist hafi svör frá allmörgum sveitarfélögum, og komið hefur í ljós að í einhverjum tilvikum hafa menn talið að úrskurðinn eigi einungis við áætlanir þar sem málsmeðferð var skv. skipulagslögum nr. 123/2010.  
 
Málsmeðferð Lambastaðahverfis hófst árið 2010 skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, eins og skýrt kemur fram í  úrskurðinum. Því máli var vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem málsmeðferð var talin ógild þar sem meira en þrír mánuðir voru liðnir frá endanlegri samþykkt sveitarstjórnar þar til auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Rök úrskurðarnefndarinnar voru þau að þar sem engin ákvæði væru um lagaskil  deiliskipulagsáætlana í skipulagslögum nr. 123/2010, ættu ákvæði hinna nýju laga um tímafresti og gildistöku við um ofangreinda áætlun þótt málsmeðferð hennar hefði hafist á grundvelli skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Orðrétt segir í úrskurðinum:

„......Þau ákvæði skipulags- og byggingalaga í 2. mgr. 56. gr. skipulagslaga sem eiga við um málsmeðferð svæðis- og aðalskipulags, en þar er ekki að finna sérreglu um málsmeðferð deiliskipulagstillagna sem ólokið var við gildistöku skipulagslaga. Gilda því ákvæði skipulagslaga um málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar eftir gildistöku þeirra laga.“

 
Þar sem málsmeðferð deiliskipulags lýkur ekki fyrr en með birtingu auglýsingar í B-deild á þessi niðurstaða úrskurðarnefndarinnar því við um allt deiliskipulag þar sem málsmeðferð er ólokið og umræddir tímafrestir í nýjum skipulagslögum eru útrunnir, óháð því hvort málsmeðferð hóst skv. eldri lögum eða nýjum.
 
Í bréfi sínu óskar Skipulagsstofnun eftir því að þau  sveitarfélög sem yfirfarið hafa listana með þeim skilningi að tímafrestirnir ættu einungis við um deiliskipulag sem farið var með skv. nýjum skipulagslögum, að fara yfir þá aftur. Jafnframt óskar stofnunin eftir svörum sem fyrst frá þeim sem ekki hafa þegar sent yfirfarna lista.  Það er nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin að hafa yfirlit yfir hvaða áætlanir teljast vera í gildi.