18. des. 2012

Breytingar á lögum um opinber innkaup - umsögn sambandsins

  • mappa

Á undanförnum misseri hefur töluvert verið rætt um svokallaðar viðmiðunarfjárhæðir í innkaupum ríkis og sveitarfélaga. Þessar viðmiðunarfjárhæðir eru af  tvennum toga: Annars vegar eru EES-viðmiðunarfjárhæðir, sem mæla fyrir um það hvenær skuli efnt til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar eru lægri viðmiðunarfjárhæðir sem tiltaka hvenær útboðsskylda verður virk innanlands.

Gagnvart ríkinu eru þessar innanlandsfjárhæðir lögfestar og skal innkaupum ríkisstofnana á bilinu milli þeirra og EES-fjárhæðanna hagað í samræmi við 2. þátt laga um opinber innkaup.

Um sveitarfélögin gildir að hvert þeirra tiltekur sínar viðmiðunarfjárhæðir í reglum sem sveitarstjórn setur. Útboðsskylda nær til innkaupa á bilinu milli þeirra fjárhæða og EES-fjárhæðanna og skal innkaupunum hagað í samræmi við nánari reglur hlutaðeigandi sveitarfélags. Í könnun sem sambandið gerði meðal sveitarfélaga í desember 2011 kom fram að flest þeirra höfðu sett sér slíkar reglur eða voru með þær í vinnslu.

Sveitarfélag getur einnig ákveðið að í stað eigin reglna gildi viðmiðunarfjárhæðir og ákvæði 2. þáttar laganna með sama hætti og um ríkisstofnanir. Nokkur óvissa hefur hins vegar verið um það hvort - og þá að hvaða marki - innkaup sveitarfélaga á bilinu milli viðmiðunarfjárhæða heyri undir úrskurðarvald kærunefndar útboðsmála.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem m.a. er ætlað að eyða þessari óvissu með því að skýrt verði kveðið á um það í lögum að kærunefnd útboðsmála fjalli einungis um lögmæti innkaupa sveitarfélaga að því marki sem þau falla undir 3. þátt laganna, þ.e. innkaup yfir EES-viðmiðunarfjárhæðum. Þar segir þó ennfremur að ákveði sveitarfélag að beita reglum 2. þáttar um innkaupin, hvort sem er almennt eða í einstökum innkaupum, leiði það til þess að kærunefndin fái úrskurðarvald.

Við umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarpið hefur komið fram að þrýst væri á breytingu í þá átt að úrskurðarvald kærunefndar verði útvíkkað meira og taki til allra útboðsskyldra innkaupa sveitarfélaga, með sama hætti og nú gildir um ríkisstofnanir.

Sambandið hefur eindregið lagst gegn því að slík breyting verði gerð á frumvarpinu í meðförum þingsins. Í umsögn sambandsins kemur fram að lögin eigi ekki að fella útboð sveitarfélaga undir EES-viðmiðunarfjárhæðum undir valdsvið kærunefndarinnar. Bent er á að verði innkaup sveitarfélaga felld undir 2. þátt laganna með sjálfvirkum hætti muni það hafa margvísleg áhrif, þyngja stjórnsýslu innkaupamála verulega og lengja málsmeðferð með opnun kæruleiðar. Einboðið sé að kostnaðarmat á breytingunni fari fram, þar sem reiknað verði út hverjar afleiðingarnar yrðu í fjölda kærumála og lengri málsmeðferð hvers innkaupamáls.

Í umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarpið er kveðið fastar að orði og eindregið mælt með því að innkaup sveitarfélaga undir EES-viðmiðunarfjárhæðum séu alfarið undanþegin úrskurðarvaldi kærunefndar. Rök borgarlögmanns fyrir þessu eru einkum að ófyrirsjáanlegt sé hvernig úrskurðarframkvæmdin muni þróast og hvaða áhrif það hefði á innkaupareglur sem sveitarfélögin hafa þegar sett sér.

Sambandið tekur undir þessi rök borgarlögmanns og hefur komið því á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að gjalda verði varhug við því að setja svo opin og óskýr fyrirmæli í lög án samráðs við sveitarfélögin í landinu. Að lágmarki verði að ætla sveitarfélögunum rúman umþóttunartíma, komi til þess að úrskurðarframkvæmd kærunefndarinnar verði breytt þrátt fyrir andmæli. Lagt er til að slík breyting taki fyrst gildi hálfu ári eftir að hún er samþykkt þannig að sveitarfélögunum gefist ráðrúm til þess að endurskoða reglur sínar.