10. des. 2012

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga

  • Samradsfundur-015a

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn sl. föstudag. Slíkir fundir eru haldnir í það minnsta einu sinni á ári og sátu hann fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, innanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Einnig sat velferðarráðherra hluta fundarins.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti fundinn og  tæpti m.a. á ýmsu samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga og lýsti ánægu með góð samskipti við sambandið og sveitarfélögin Því næst fór  Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra í stuttu máli yfir það helsta í þróun og horfum  í efnahagsmálum.  Þá greindi  Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, frá því helsta sem nauðsynlegt væri að ræða á fundinum. Hallgrímur Guðmundsson og Gunnar Björnsson fóru yfir greinargerðir frá sameiginlegum nefndum ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál annars vegar og kjaramál hins vegar. Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, höfðu framsögu og skýrðu fjölda mála sem til umfjöllunar voru, s.s. um tekjustofna sveitarfélaga og stefnumörkun sambandsins í þeim efnum, fjárhagsstöðu sveitarfélaga, endurskoðun vegalaga, málsmeðferð vegna frumvarps að nýrri  stjórnarskrá, kostnaðarmat lagafrumvarpa og margt fleira. Ítarlegar og gagnlegar umræður fóru fram um málin.

Við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra var rætt um þjónustu við fatlað og aldrað fólk, atvinnuátaksverkefnið VINNA og VIRKNI 2013, húsnæðismál, húsnæðisbætur, varasjóð húsnæðismála og samráð aðila um þjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga. o.fl.

Fyrir hönd sambandsins sátu fundinn auk Halldórs og Karls stjórnarmennirnir Jórunn Einarsdóttir, Eiríkur Björn Björgvinsson, Elín Líndal, Gunnar Einarsson og Guðríður Arnardóttir og sviðsstjórarnir Gunnlaugur Júlíusson, Guðjón Bragason, Magnús Karel Hannesson, Anna Guðrún Björnsdóttir og Inga Rún Ólafsdóttir.

Samradsfundur-011a
Yfirlitsmynd frá Þjóðmenningarhúsinu þar sem fundurinn fór fram, hægra megin sátu fulltrúar ríkisvaldsins en vinstra megin fulltrúar sveitarfélaganna.