29. nóv. 2012

Frumvarp til laga um afnám húsmæðraorlofs lagt fram

  • vintagehousewife

Sex þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um orlof húsmæðra nr. 53/1972 með síðari breytingum. Frumvarpinu er ætlað að fella úr gildi lög um orlof húsmæðra en þó er gert ráð fyrir því, í ákvæði til bráðabirgða, að sveitarfélög geti heimilað orlofsnefnd að starfa áfram til 1. maí nk. sé rekstrarfé í sjóðum nefndarinnar.

Hinn 1. maí 2013 er þó ætlast til að lögin falli að fullu úr gildi enda er í þeim gert ráð fyrir að greitt sé til orlofsnefnda fyrir 15. maí ár hvert. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um forsögu orlofs húsmæðra og þann tilgang laganna að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsréttindi líkt og launþegum. Lögin voru sett á þeim tíma þegar barnauppeldi og heimilishald var að mestu í höndum kvenna og stór hluti þeirra starfaði einungis á heimilum án þess að til kæmu launagreiðslur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt unnist í jafnréttisbaráttu, segir í greinargerð með frumvarpinu.

Frumvarpið á vef Alþingis.