15. nóv. 2012

Viðbrögð vegna atvinnulausra sem hverfa af atvinnuleysisbótum

  • PPP_PRD_090_3D_people-Cooperation


 

Eins og kunnugt er stendur ekki til af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis að framlengja bráðbirgðaákvæði um rétt til atvinnuleysisbóta í fjögur ár um næstu áramót. Því er fyrirsjáanlegt að á tímabilinu 1. september 2012 til 31. desember 2013 hafi 3.700 manns fullnýtt bótarétt sinn. Til viðbótar sýnir könnun, sem gerð var á vegum sambandsins og kynnt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í september sl., að um 1.500 manns fái nú þegar fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum vegna þess að þeir eru án atvinnu og eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

Sambandið hefur tekið þátt í sameiginlegum viðræðum fulltrúa velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, SA, ASÍ o.fl. undanfarnar vikur til að finna leiðir til að bregðast við þessari þróun svo tryggja megi annars vegar að allur þessi fjöldi fólks fái tilboð um virkniúrræði, s.s. í formi starfatilboða eða úrræða á vegum VIRK, og hins vegar að útgjöld sveitarfélaga til framfærslu stóraukist ekki á næsta ári eins og fyrirsjáanlegt er ef ekkert verður að gert.

Fimmtudaginn 15. nóvember sl. var haldinn fundur á vegum sambandsins um þetta mál. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar frá 18 sveitarfélögum þar sem gert er ráð fyrir að á árinu 2013 verði 20 eða fleiri einstaklingar sem munu missa réttinn til atvinnuleysisbóta. Á fundinum kynnti Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Vinnumálastofnunar og Atvinnuleysistryggingasjóðs, meðfylgjandi tillögu að  viðbrögðum sveitarfélaga, ríkisins, Vinnumálastofnunar, SA, ASÍ og fleiri aðila vinnumarkaðarins  vegna framangreindrar þróunar. Einnig fylgir hér með slæðukynning Runólfs.

 

Í stuttu máli byggist tillagan á eftirfarandi forsendum:

  1. Atvinnuleitendum sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu frá 1. september 2012 fram til 31. desember 2013 verði öllum boðin starfstengd vinnumarkaðsúrræði á árinu 2013, samtals 3.700 atvinnuleitendur.
  2. Markmiðið er að þessir atvinnuleitendur verði boðaðir í greiningarviðtöl og ráðgjöf hjá Vinnumálastofnun eða STARFI, vinnumiðlun og ráðgjöf ehf., á tímabilinu frá 1. desember 2012 til og með september 2013. Enn fremur verður leitað eftir samstarfi við einkareknar vinnumiðlanir um miðlun starfa í verkefninu.
  3. Heildarkostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna verkefnisins er áætlaður  2,6-2,7 ma.kr., en tillagan er lögð fram til umræðu með fyrirvara um endanlega fjármögnun og almenna þátttöku sveitarfélaga.
  4. Ef áætlað er að 60% taki tilboði um starfstengd vinnumarkaðsúrræði þurfa samtals 2.200 sex mánaða starfstengd vinnumarkaðsúrræði að vera í boði á árinu 2013.
  5. Sveitarfélög skapi að lágmarki 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (30%) á tímabilinu, ríki 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (10%) og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (60%).
  6. Vinnumálastofnun geri samning við hvert og eitt sveitarfélag um þátttöku í verkefninu.

 

Mikilvægt er að hafa í huga að forsendur fyrir því að af þessu verði er að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkisstjórnin samþykki fyrirliggjandi tillögu og að almenn þátttaka sveitarfélaga verði í verkefninu.

Þess skal getið að nýleg reynsla Reykjavíkurborgar af kostnaði við að skapa störf sem þessi er um 360 þús.kr. á mánuði með öllu en frá dregst þátttaka Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 180 þús.kr. m.v. fulla þátttöku og að teknu tilliti til 8% framlags vegna iðgjalda í lífeyrissjóði.  Ljóst er að heildarkostnaður sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar, m.v. að ekkert verði að gert, yrði mun hærri en sem nemur nettókostnaði við að vera þátttakendur í að skapa framangreind 2.200 sex mánaða starfstengd vinnumarkaðsúrræði í samvinnu við ríkið og almenna vinnumarkaðinn þar sem hlutur sveitarfélaga er 30%.

Forsvarsmenn sveitarfélaga eru hvattir til að kynna sér málið vel og byrji að huga að viðbrögðum vegna þessa. 


Vinna og virkni, tillaga

Vinna og virkni, glærukynning Runólfs Ágústssonar