16. apr. 2012

Umsagnir um tvö lagafrumvörp

  • mappa

Lögfræði- og velferðarsvið sambandsins hefur sent frá sér umsagnir um tvö lagafrumvörp sem nú liggja frammi á Alþingi. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, 598. mál og frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, 510. mál.

Í síðara frumvarpinu er um að ræða þingmannafrumvarp þar sem lögð er til breyting á álagningarhlutfalli fasteignaskatts á „hesthús og önnur útihús utan bújarða“. Í umsögn sinni mælir sambandið frekar með því að frumvarp innanríkisráðherra verði lagt til grundvallar við umræðu um málið í efnahags- og viðskiptanefnd. Þá telur sambandið rétt að taka það fram að ef meirihluti er fyrir því á Alþingi að lækka álagningarhlutfall á hesthús er brýnt að málið fái þar skjóta afgreiðslu til þess að sveitarstjórnir geti breytt álagningu ársins án verulegra vandkvæða.

Í frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum hafði sambandið til hliðsjónar skýrslu frá Háskólanum í Reykjavík sem nefnist „Mat á umhverfisáhrifum – tilkynningarskylda. Ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda 2004-2009." Sambandið tekur undir þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslunni þar sem það er mat skýrsluhöfunda að frumvarpið sé mjög gallað og að heppilegra hefði verið að fækka þeim framkvæmdum sem eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar frekar en að fjölga þeim, eins og lagt er til í frumvarpinu. Frumvarpið mun ekki aðeins auka álag á Skipulagsstofnun heldur einnig á sveitarfélögin án þess að áform séu um að bæta sveitarfélögunum þann kostnaðarauka.