02. apr. 2012

Ný þingmál sem snerta sveitarfélögin

  • Skjaldarmerki


Eins og komið hefur fram í fréttum var fjöldi nýrra frumvarpa lagður fram á Alþingi áður en hlé var gert á þingfundum fyrir páska. Allmörg þessara mála snerta sveitarfélögin með ýmsum hætti og væntir sambandið þess að veita umsagnir um flest neðangreindra mála:

Frumvörp um dýr og búfjárhald

Fyrst ber að nefna þrjú frumvörp sem varða dýr.

  • Frumvarp til laga um velferð dýra. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 15/1994 um dýravernd og verulegan hluta laga um búfjárhald nr. 103/2002. Frumvarpið felur m.a. í sér að störf búfjáreftirlitsmanna verði flutt frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar. Á hinn bóginn eru felldar á sveitarfélögin skyldur til þess að handsama laus dýr, ásamt hjálparskyldu vegna sjúkra, særðra eða bjargarlausra dýra sem eru hálfvillt eða villt. Hefur af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga verið gerð athugasemd við að þessar skyldur séu of víðtækar samkvæmt frumvarpinu og geti valdið verulegum kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Umhverfisráðherra ber ábyrgð á aðgerðum vegna villtra fugla og villtra spendýra sem eru í útrýmingarhættu og dýra sem lenda í umhverfisslysum. Þrátt fyrir hjálparskyldu er heimilt að taka ákvörðun um aflífun villtra dýra þegar fyrirsjáanlegur kostnaður við aðgerðir er verulegur.
  • Frumvarp til laga um búfjárhald. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 103/2002 um búfjárhald, en hluti þeirra laga, þ.á m. ákvæði um búfjáreftirlit, hefur jafnframt verið felldur inn í frumvarp til laga um velferð dýra. Sveitarstjórnum er m.a. heimilt að setja samþykkt um búfjárhald og eftir atvikum takmarka eða banna búfjárhald í sveitarfélagi eða á tilteknum svæðum innan þess. Jafnframt er heimilt að kveða á um vörslu búfjár allt árið eða tiltekinn hluta ársins.
  • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sá sem telur sig eiga rétt til nýtingar hlunninda skv. 20. gr. laganna skuli afla staðfestingar sveitarstjórnar og sýslumanns á rétti sínum. Frumvarpið virðist því leiða til aukinna stjórnsýslu fyrir sveitarfélögin en ekki hefur verið lagt mat á hugsanlegan kostnaðarauka þeirra.

Sveitarfélög og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru sérstaklega hvött til þess að kynna sér ofangreind frumvörp og senda inn umsagnir til Alþingis og eða ábendingar til sambandsins sem nýst gætu við gerð umsagna um málin. Nánari upplýsingar um þessi mál veitir Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur.

Fiskveiðistjórnun og veiðigjald

Af hálfu sambandsins hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort sendar verði umsagnir um þessi frumvörp. Þó mun væntanlega verða skoðað hvaða bein og óbein áhrif frumvörpin kunna að hafa fyrir sveitarfélög. Sveitarstjórnir eru hins vegar hvattar til þess að kynna sér frumvörpin og senda eigin umsagnir til Alþingis ef þær telja ástæðu til.

Önnur þingmál

  • Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar. Frumvarp um sama efni var lagt frá á síðasta löggjafarþingi. Lagði sambandið þá til að kveðið yrði skýrt á um að kostnaður við klippuvinnu og aðra aðstoð slökkviliða á vettvangi umferðarslysa sé innifalinn í ábyrgðartryggingu ökutækja.
  • Frumvarp um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Lagðar eru til nokkrar breytingar á gildandi lögum, m.a. um loftgæði og eftirlit með færanlegri starfsemi. Að áliti sambandsins er frumvarpið ekki verulega íþyngjandi fyrir sveitarfélögin.
  • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á viðaukum við lögin vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA. Mun fleiri framkvæmdir en áður verða því tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar og mun það jafnframt valda auknu álagi á sveitarfélögin. Að einhverju leyti eiga sveitarfélögin að geta mætt þeim kostnaðarauka sem af hlýst með aukinni gjaldtöku. Að tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga er ennfremur lagt til að ákvæði laganna um sameiginlegt mat framkvæmda verði skýrt og er lagt til að við lögin bætist ný skilgreining um það hvenær framkvæmd telst fyrirhuguð.
  • Frumvarp til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Gert er ráð fyrir því að sýslumannsembættin í landinu verði átta í stað tuttugu og fjögurra eins og nú er og að hið nýja skipulag taki gildi 1. janúar 2015. Fram kemur í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins að ekki sé á þessu stigi unnt að leggja mat á fjárhagsleg áhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð.
  • Frumvarp um breytingu á lögreglulögum. Lagt er til að lögregluumdæmin í landinu verði átta í stað fimmtán.
  • Tillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun).

Rétt er að geta þess að framlagningu frumvarps um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs hefur verið frestað að ósk sveitarfélaga.