28. mar. 2012

Átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur

 • Ungt-folk

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu velferðarráðherra um átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur næsta sumar. Áætlað er að verja allt að 383 milljónum króna í heild til verkefnisins. Vinnumálastofnun mun stýra átakinu sem efnt er til í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur samþykkt að verja allt að 277 milljónum króna til verkefnisins. Veittir verða styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nema að hámarki fjárhæð atvinnuleysisbóta fyrir hvern námsmann og nemur upphæðin kr. 165 þúsund krónur fyrir hvorn mánuð.   Laun verður að greiða samkvæmt kjarasamningum.

Vinnumálastofnun hvetur nú sveitarfélög til að hefja undirbúning þessa átaks og móta störf og verkefni sem fallið geta að því. Vonir standa til að með átakinu verði til 850 – 900 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn og atvinnuleitendur sem skiptast á milli opinberra stofnanna og sveitarfélaga.  Stefnt er að því að ljúka undirbúningi átaksins á næstu vikum þannig að sveitarfélög geti auglýst störfin í lok apríl. Sveitarfélögin auglýsa sjálf störfin á sínum heimasíðum og geta námsmenn og atvinnuleitendur sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun sótt um þau.

Nánari fyrirmæli og úrskýringar verða send ykkur í næstu viku en hér að neðan eru helstu minnisatriði og dagsetningar varðandi verkefnið sem gott er að hafa til hliðsjónar.

 1. Ráðningartími námsmanna er að hámarki tveir mánuðir. Miðað er við frá 1. júní – 30. júlí.
 2. Ekki er heimilt að ráða í hlutastarf.
 3. Námsmaður sem ráðinn er af viðkomandi sveitarfélagi þarf að eiga þar lögheimili.
 4. Skilyrði er að námsmenn séu að koma úr námi og að þeir séu skráðir í nám að hausti (séu á milli anna).
 5. Atvinnuleitendur geta einnig sótt um störf en þeir umsækjendur þurfa að vera skráðir hjá Vinnumálastofnun sem umsækjendur um atvinnu. Hafa þarf í huga að ef viðkomandi atvinnuleitandi er ekki með fullan bótarétt þarf viðkomandi sveitarfélag (launagreiðandi)  að greiða mismun á bótum og kjarasamningsbundnum launum.
 6. Viðkomandi sveitarfélag þarf að senda upplýsingar um fjölda starfa sem þeir óska eftir að ráða í fyrir 10. apríl nk. á neðangreind netföng.
 7. Viðkomandi sveitarfélag móttekur innan viku upplýsingar um fjölda ráðningarheimilda.
 8. Gera má ráð fyrir því að ráðningarheimildir sveitarfélaga verði svipaðar og í fyrra.
 9. Svara þarf öllum umsækjendum um atvinnu.
 10. Um ráðningar vegna þessa verkefnis gilda lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
 11. Uppgjör við Vinnumálastofnun vegna þeirra starfa sem þátttakendur í verkefninu ráða í, fer fram í lok sumars.  Nánari fyrirmæli um það verða send út síðar.

 

Óskir um fjölda ráðninga sendist á: sumarstorf@vmst.is

Tengiliður verkefnisins er  Ásdís Guðmundsdóttir:  asdis.gudmundsdottir@vmst.is og Margrét Lind Ólafsdóttir: margret.olafsdottir@vmst.is