03. jan. 2012

Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 tóku gildi um áramót

  • mappa

Eins og sveitarstjórnarmönnum er kunnugt samþykkti Alþingi 17. september sl. ný sveitarstjórnarlög og tóku þau gildi 1. janúar 2012. Verulegum áfanga er náð með samþykkt nýrra sveitarstjórnarlaga en í þeim felst heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Lögin fela í sér veigamiklar breytingar á ýmsum atriðum eldri laga. Helstu áherslubreytingar eru einkum þessar:

  • Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni og aga í fjármálum sveitarfélaga, svo sem með setningu fjármálareglna, ákvæðum um bindandi gildi fjárhagsáætlana og kröfu um að aflað sé álits óháðs aðila vegna meiriháttar skuldbindinga
  • Heill kafli laganna fjallar um samráð við íbúa og aðkomu þeirra að málefnum sveitarfélaga. Nýmæli eru m.a. um skyldu sveitarstjórna til að upplýsa íbúa og um rétt íbúa til þess að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál
  • Aukin áhersla á gegnsæi, jafnræði og jafnrétti innan sveitarstjórna, m.a. um skyldu sveitarstjórna til að setja siðareglur, rétt framboða til þess að tilnefna áheyrnarfulltrúa í byggðarráð og fastanefndir, breyttar reglur um kjör í nefndir sem er ætlað að stuðla að jafnara hlutfalli kynjanna og rétt sveitarstjórnarmanna til að fá upplýsingar um samstarfsverkefni
  • Stjórnskipuleg staða sveitarfélaga styrkist umtalsvert, m.a. vegna ákvæða um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla sem er fyrirsjáanlegt að hafi fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin, skyldu ráðherra sveitarstjórnarmála til þess að gæta að hagsmunum sveitarfélaga og skyldu ráðuneyta og stofnana til þess að eiga samráð við landshlutasamtök um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landssvæði sérstaklega. Þá er í fyrsta sinn vísað beint til Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga í lögum en sáttmálinn var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1991.

Ítarlegra yfirlit um helstu breytingar er að finna í minnisblaði sem sambandið sendi öllum sveitarfélögum í lok september 2011 og í glærusafni sem Guðjón Bragason svisstjóri lögfræði- og velferðarsviðs hefur tekið saman. Þar kemur fram að allar sveitarstjórnir þurfa að setja sér siðareglur, endurskoða samþykktir um stjórn og fundarsköp og yfirfara þá samninga sem eru í gildi um samstarf sveitarfélaga með hliðsjón af ákvæðum nýrra laga. Er þess vænst að þessi vinna sé víða komin vel á veg en tekið skal fram að innanríkisráðuneytið og sambandið vinna nú í sameiningu að gerð fyrirmyndar að samþykktum um stjórn sveitarfélaga.
Töluverð vinna er enn eftir við frekari útfærslu og innleiðingu fjármálareglna og annarra stjórnvaldsfyrirmæla á grundvelli hinna nýju laga. Af hálfu innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga er lögð sérstök áhersla á að ljúka sem fyrst vinnu við gerð reglugerðar um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og fjárhagsleg viðmið. Drög að reglugerðum um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna og borgarafunda eru til umsagnar á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Sveitarstjórnir eru hvattar til þess að kynna sér þau drög og senda athugasemdir til ráðuneytisins ef þær telja ástæðu til.
Fyrir þá sem vilja kynna sér helstu breytingar sem gerðar voru á frumvarpi til sveitarstjórnarlaga í meðförum Alþingis getur þetta yfirlit á heimasíðu sambandsins verið gagnlegt.
Nánari upplýsingar veitir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs sambandsins.