19. sep. 2011

Ný sveitarstjórnarlög samþykkt á Alþingi

  • Althingi_300x300p

Eins og sveitarstjórnarmönnum er kunnugt samþykkti Alþingi 17. september sl. ný sveitarstjórnarlög. Verulegum áfanga er náð með samþykkt nýrra sveitarstjórnarlaga. Mikið verk er þó framundan, m.a. um frekari útfærslu og innleiðingu fjármálareglna með gerð aðlögunaráætlana til allt að tíu ára. Einnig munu allar sveitarstjórnir þurfa að setja sér siðareglur, endurskoða samþykktir um stjórn og fundarsköp og yfirfara þá samninga sem eru í gildi um samstarf sveitarfélaga með hliðsjón af ákvæðum nýrra laga.

Við umræðu á Alþingi spannst einna mest umræða um  108. gr. frumvarpsins, sem fjallar um frumkvæði íbúa, þ.e. rétt þeirra til að krefjast þess að haldnir verði borgarafundir og almennar atkvæðagreiðslur um einstök málefni. Af hálfu sveitarfélaga var einkum gagnrýnt að greinin innihéldi mjög litlar takmarkanir á því um hvaða mál íbúar geti krafist atkvæðagreiðslu um. Aðeins var tekið fram að hvorki verði krafist kosningar um ráðningar í störf hjá sveitarfélagi né tillögur sem ganga gegn lögum eða myndu leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 108. gr.

Á fundi sínum þann 9. september sl. ræddi stjórn sambandsins meðal annars hvort framangreind takmörkun þýddi t.d. að sveitarstjórn gæti hafnað því að halda atkvæðagreiðslu um skatta- eða gjaldskrárákvarðanir, með vísan til skyldu sveitarfélaga til þess að halda sig innan fjárhagsviðmiða. Afstaða stjórnarinnar var að  greinin væri ekki nógu skýr um þetta atriði og að hún þyrfti að vera fortakslaus um það að ekki sé hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um ákvörðun lögbundinna tekjustofna sveitarfélaga. Lagði stjórnin áherslu á að kveða skýrar á um þetta atriði til að sveitarstjórnir þyrftu ekki að standa í deilum við íbúa um túlkun greinarinnar. Að öðru leyti taldi stjórnin heppilegast að sveitarfélögin setji sér nánari reglur um það hve hátt hlutfall íbúa þurfi til að krefjast borgarfunda og almennra atkvæðagreiðslna, innan þess ramma sem lögin tilgreina.

Á fundi með samgöngunefnd Alþingis bentu fulltrúar sambandsins meðal annars á að í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög eða skattamál. Eðlilegast sé að sömu reglur gildi um þetta atriði fyrir bæði stjórnsýslustigin.

Samgöngunefnd lagði til verulegar breytingar á 108. gr. og er óhætt að segja að nefndin, og mikill meirihluti þingmanna, hafi í öllum meginatriðum tekið undir afstöðu sambandsins eins og sjá má í 2. og 3. mgr. Lagagreinin hljóðar nú svo:

Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr.

Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi. Sveitarstjórnin á ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.

Almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. verður ekki krafist um efni fjárhagsáætlunar skv. 62. gr. og viðauka skv. 63. gr., um tekjustofna sveitarfélaga eða álagningu annarra lögheimilla gjalda, um ráðningu í störf hjá sveitarfélagi, um laun og önnur starfskjör sveitarstjórnarmanna eða starfsmanna sveitarfélags eða tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins.

Ráðuneytið skal í reglugerð mæla nánar fyrir um það hvernig staðið verður að söfnun undirskrifta eða annarrar staðfestingar á ósk íbúa skv. 1. mgr. Þar má m.a. kveða á um að undirskriftir skuli lagðar fram á sérstöku eyðublaði sem ráðuneytið eða viðkomandi sveitarfélag lætur gera eða að staðfesting skulu lögð fram rafrænt á nánar tiltekinn hátt. Sé mælt fyrir um rafræna staðfestingu skal þó ávallt jafnframt gefinn kostur á að undirskriftir verði lagðar fram skriflega á þar til gerðum eyðublöðum.

Við mat á því hvort tilskilinn fjöldi hafi lagt fram ósk skv. 1. mgr. skal miðað við þá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna á þeim degi sem söfnun staðfestingar lýkur samkvæmt kjörskrárstofni sem Þjóðskrá Íslands lætur sveitarfélagi í té.

Í framhaldsnefndaráliti samgöngunefndar er vísað til þess aukna aga í fjármálum, sem lögð er áhersla á í frumvarpinu. Ekki megi gera sveitarstjórnum erfiðara um vik með því að gera íbúum mögulegt að standa gegn ráðdeild í stjórn fjármála. Hins vegar bendir nefndin á að sveitarstjórnir geti að sjálfsögðu ákveðið að halda íbúafundi eða atkvæðagreiðslu um umdeild mál ef óskir koma fram um slíkt frá íbúum. Rétt er að taka fram að slíkar atkvæðagreiðslur eru ráðgefandi fyrir sveitarstjórn nema hún ákveði að niðurstaða skuli vera bindandi til loka yfirstandandi kjörtímabils, sbr. 107. gr. laganna.

Sambandið og innanríkisráðuneytið munu að sjálfsögðu veita sveitarfélögum sem þess óska aðstoð við innleiðingu breytinga sem ný sveitarstjórnarlög fela í sér.