08. mar. 2019

Upptökur af kynningarfundi um heimsmarkmiðin

Fullt var út úr dyrum á kynningarfundi á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, sem Samband íslenskra sveitarfélaga gekkst nýlega fyrir. Sveitarstjórnarfólk víðs vegar að af landinu fjallaði um heimsmarkmiðin séð frá sjónarhóli sveitarfélaga, tilgang þeirra og notagildi í því breiða samhengi sem sjálfbær þróun stendur fyrir.

Nálgast má upptökur af dagskrá fundarins og öllum framsögum. Óhætt er að hvetja alla til að kynna sér þau stórfróðlegu og áhugaverðu erindi.

Fundurinn hófst með ávarpi sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti og fylgdi ráðherra þar eftir með persónulegum og skemmtilegum hætti bréf um heimsmarkmiðin, þar sem ráðherra hvetur sveitarstjórnarmenn til dáða.

Í framsögu sinni fjallaði Aldís um heimsmarkmiðin og hvernig nálgast megi þau sem verkefni sveitarstjórnarstigsins. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur áætlað að framkvæmd heimsmarkmiðanna komi að 2/3 hluta til kasta sveitarfélaga og sagði Aldís ljóst að sveitarfélög hefðu hér lykilhlutverki að gegna. Lagði formaður í ljósi þess til að myndaður verði umræðu- og samstarfsvettvangur innan sambandsins, sem fái m.a. það hlutverk að marka sveitarfélögum stefnu varðandi innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Aðrar framsögur áttu m.a. Fanney Karlsdóttir, formaður verkefnisstjórnar forsætisráðuneytis um heimsmarkmiðin, Páll Magnússon, bæjarritari Kópavogsbæjar, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar. Þá tóku einnig til máls Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar og Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga sagði frá áhuga lánasjóðsins á útgáfu grænna skuldabréfa.