07. jún. 2019

Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum

Tæplega 30% fullorðinna og rúmlega 70% framhaldsskólanema fá ekki nægan svefni, dagleg neysla orkudrykkja meðal framhaldsskólanema hefur tvöfaldast á tveimur árum, dregið hefur úr ávísunum sýklalyfja til barna, þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hefur minnkað síðastliðin ár og um 60% landsmanna telja sig mjög hamingjusama. Þetta og margt fleira má lesa út úr nýjum lýðheilsuvísum frá Embætti landlæknis.

Embætti landlæknis kynnti nýju lýðheilsuvísana á fundi í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í gær. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar.

Lýðheilsuvísarnir eru gefnir út eftir heildbrigðisumdæmum og eru að því leyti sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu innan þeirra mikilvægar  upplýsingaveitur. Vísarnir geta sem dæmi auðveldað stöðugreiningu innan viðkomandi umdæmis og greitt fyrir markvissri samvinnu allra hlutaðeigandi aðila að bættri heilsu og líðan íbúa.

Framsetning lýðheilsuvísanna markast einkum af þeim þáttum sem falið geta í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá hefur verið leitast við að velja inn þá þætti í sjúkdómsbyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við.

Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur með Embætti landlæknis að innleiðingu heilsueflandi sveitarfélaga og gerði Aldís Hafsteinsdóttur, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, þessu mikilvæga samstarfsverkefni nánari grein í ávarpi sínu á kynningarfundinum í gær.

Þá var Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, einnig á meðal framsögumanna. Sagði hann frá því hvernig Reykjanesbær hefur nýtt sér lýðheilsuvísa sem hvatningu til að bæta heilsu og líðan íbúa og hvernigsamstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er háttað í eflingu lýðheilsumála.