Landlæknir, sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri lýsa yfir áhyggjum vegna verkfalla

Landlæknir, sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri hafa sent frá sér sameiginlegt minnisblað þar sem lýst er áhyggjum þeirra vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkfalla á vinnumarkaði.

Landlæknir, sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri hafa sent frá sér sameiginlegt minnisblað þar sem lýst er áhyggjum þeirra vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkfalla á vinnumarkaði.

Í minnisblaðinu, segir að faraldur af völdum SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19 sé í uppsiglingu. Mikill viðbúnaður er um allan heim og lýsti ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi almannavarna þann 27. janúar sl. í samvinnu við sóttvarnalækni. Óvissustigið var síðar hækkað í hættustig þegar fyrsta smitið greindist hérlendis degi síðar. Hættustig almannavarna þýðir m.a. að grípa verði til tafarlausra ráðstafana til að tryggja öryggi og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða.

Sjúkrastofnanir, öldrunarstofnanir, lögregla og fjölmargar aðrar opinberar stofnanir hafa lykilhlutverki að gegna í viðbragðsáætlun almannavarna. Einkaaðilar gegna einnig mikilvægu og skilgreindu hlutverki í áætluninni, til að mynda við öflun aðfanga og annað sem kann máli að skipta.

Þannig er það afar mikilvægt að starfsemi þeirra stofnana og fyrirtækja sem eru starfandi í landinu verði eins órofin og framast er unnt. Ríkir almannahagsmunir felast í því að störf á t.a.m. heilbrigðisstofnunum, hjúkrunarheimilum og öðrum stofnunum ríkis og sveitarfélaga verði í sem eðlilegustu horfi.

Ríkislögreglustjóri, sóttvarnalæknir og landlæknir skora því á þá aðila sem nú eru í kjarasamningsviðræðum að leita allra leiða til að enda þær verkfallsaðgerðir sem nú eru í gangi og jafnframt að koma í veg fyrir þær aðgerðir sem nú eru fyrirhugaðar. Líklegt má telja að verkfallsaðgerðir muni draga úr þeim opinberu sóttvarnaaðgerðum sem nú eru í gangi gegn COVID-19 með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lýðheilsu hér á landi. Þá munu verkföll án efa hafa veruleg áhrif á veitingu heilbrigðisþjónustu.