01. apr. 2019

Helstu mál XXXIII. landsþings

Stóru málin á XXXIII. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fram fór föstudaginn 29. mars sl. voru húsnæðismál, samgöngumál og kjaramál. Af einstökum málum báru fyrirhugaðar skerðingar á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og veggjöld einna hæst. 

Senuþjófur þingsins var þó líklega sli.do, nýtt veftól sem sambandið hefur tekið í þjónustu sína vegna fyrirspurna og umræðna.

Sli.do er veftól sem birtir skriflegar fyrirspurnir í rauntíma. Það er öllum aðgengilegt sem eru með aðgang að snjalltæki og býr auk þess yfir ýmsum samfélagsmiðlaeiginleikum. Geta notendur sem dæmi svarað óformlegum skoðanakönnunum og  haft áhrif á forgangsröðun eða mikilvægi spurninga með því að „líka við" einstakar fyrirspurnir.

Vöktu niðurstöður úr nokkrum óformlegum skoðanakönnunum í sli.do nokkra athygli. Ein slík leiddi t.a.m. jákvætt viðhorf í ljós, þegar viðstaddir voru beðnir um að lýsa viðhorfi sínu til veggjalda í einu orði. Skattur var einnig hugtak sem landsþingsfulltrúar notuðu og vandmeðfarið.

Landsþingi hófst að venju með ávarpi formanns. Vék Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, m.a. að stöðu mála á vinnumarkaði, sameiginlegri kjarastefnu ríkis og sveitarfélaga og væntri útgjaldaaukningu vegna nýrra kjarasamninga. Þá stiklaði hún einnig á eflingu sveitarstjórnarstigsins, með það fyrir augum að sveitarfélög geti tekið við áskoranir framtíðarinnar og auknu samráði og samstarfi ríkis og sveitarfélaga vegna opinberrar þjónustu.

Varðandi jöfnunarsjóðsmálið sagði Aldís, að ráðgerðar skerðingar á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga væru áfall, bæði fyrir einstök sveitarfélög og einnig samstarf ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt undirstrikaði formaðurinn mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög jafni sem fyrst þessar innbyrðis erjur. Næg væru verkefni stjórnvalda samt.

Þá ályktari landsþingið gegn áformum um skerðingu á framlögum til jöfnunarsjóðs, sem eru að mati landsþingsins með öllu óásættanlegar.

Í ávarpi sínu vék Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, m.a. að veggjöldum. Slíka gjaldtöku sagði hann ekki markmið sem slíka heldur tæki til að byggja upp vegakerfið. Einnig sagði ráðherra æskilegt að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar og bankanna til að fjármagna samgöngubætur, enda væri sú leið hagkvæmari fyrir ríkið en aðrar leiðir sökum lægri fjármagnskostnaðar. Þá boðaði ráðherra fjárfestingar fyrir samtals 120 ma.kr. til samgöngumála skv. samgönguáætlun 2020-2024. Meðal framkvæmda sem unnið verður á þessu tímabili við eru Vestfjarðavegur um Gufudalssveit og breikkun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar.

Alls tóku 111 landsþingsfulltrúar frá 57 sveitarfélögum þátt í landsþinginu. Að stjórnarmönnum og öðrum þingfulltrúum meðtöldum sátu 159 manns þingið. Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það kemur saman árlega.

Nálgast má upptökur af framsögum landsþings á vef sambandsins

Efri myndin er af XXXIII. landsþingi, sem fram fór á Grand hóteli Reykjavík. Á neðri myndinni má sjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra taka við ályktun landsþingsins úr hendi Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns sambandsins. (Ljósm. IH)