29. nóv. 2018

Heilsueflandi samfélög

Sveitarfélög standa nokkuð misjafnlega að framkvæmd og innleiðingu lýðheilsustefnu stjórnvalda, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Huldu Sólveig Jóhannesdóttur. Rannsóknin var unnin sem meistaraverkefni í opinberri stjórnsýslu og var markmið þess að varpa ljósi á framkvæmd og innleiðingu á lýðheilsustefnu stjórnvalda með því að skoða heilsueflandi samfélag á vegum Embættis landlæknis. 

Meistaraverkefni Huldu Sólveigar hefur nú verið gert aðgengilegt hér á vef sambandsins. Helstu niðurstöður eru þær að framkvæmd og innleiðing sveitarfélaganna sem rannsóknin tók til er ólík. Öll beita þau beinum opinberum rekstri til að ná fram markmiðum sínum, en að auki beita nokkur sveitarfélog opinberum upplýsingum, þjónustusamningum, ávísunum og styrkjum. Tengiliður sveitarfélaganna er staðsettur á mismunandi stað innan stjórnsýslunnar. Auk þess eru stýrihóparnir ólíkir og skipa mismunandi fulltrúa.