14. apr. 2020

Hegðunarreglur Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti fyrir nokkru hegðunarreglur fyrir alla sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða sem fela í sér útvíkkun á hegðunarreglum fyrir kjörna fulltrúa sem þingið samþykkti árið 1999. Nýju reglurnar eru settar fram með hliðsjón af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í stjórnun sveitarfélaga og svæða síðustu tvo áratugi þar sem útvistun almannaþjónustu hefur færst í vöxt, almenningur gerir meiri kröfur um gott siðferði og nýir samskiptamiðlar hafi orðið til. Í ályktun sem var samþykkt samhliða hvetur þingið sveitar- og svæðisstjórnir til að innleiða reglurnar eða til að setja sér hliðstæðar reglur. Það hvetur þær líka til að skipuleggja þekkingaruppbyggingu fyrir starfsfólk svo það sé betur undirbúið til að greina og bregðast við hugsanlegum siðferðislegum álitaefnum og hagsmunaárekstrum. Hlutverk reglnanna er skilgreint þannig:

  1. Að leiðbeina aðilum sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða um þá hegðun sem þeir eiga að ástunda í daglegum störfum sínum.
  2. Að upplýsa almenning um þá hegðun sem hann á rétt á að aðilar, sem koma að stjórnun sveitarfélaga og svæða, sýni af sér.
  3. Að skapa traust á þeim sem koma að stjórnun svæða og sveitarfélaga.
  4. Að leiðbeina þeim sem hafa það verkefni að tryggja að það sé borin sé virðing fyrir reglunum.
  5. Að stuðla að því að siðferðislegir staðlar verði til.

Þessi ályktun er mjög áhugaverð fyrir íslensk sveitarfélög þar sem íslensku sveitarstjórnarlögin gera eingöngu ráð fyrir siðareglum fyrir kjörna fulltrúa. Tilefni er til að skoða útvíkkun með þeim rökum sem eru settar fram í skýrslu þingsins. Það er einnig áhugavert að í greinargerð með tillögunum er rakið að siðareglum og hegðunarreglum sé oft ruglað saman. Báðum sé ætlað að hvetja til sérstakrar hegðunar kjörinna fulltrúa og starfsmanna en þær nálgist viðfangsefnið á mismunandi hátt. Hegðunarreglur skilgreini nákvæmlega hvaða hegðun sé rétt og röng meðan siðareglur leitist við að  veita leiðbeiningar um gildi og valkosti til að hafa áhrif á ákvörðun um tiltekna hegðun. Ljóst er að þetta greinimark er ekki skýrt í siðareglum íslenskra sveitarfélaga og einnig tilefni til að skoða það mál.

Hegðunarreglur Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins (2018)