29. maí 2019

Aukalandsþing og stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga ákvað á fundi sínum í dag, að boðað verði til aukalandsþings þann 6. september nk.

Jafnframt hvetur stjórnin allar sveitarstjórnir til að fjalla um Grænbók um stefnu um málefni sveitarfélaga og setja umsögn um málið í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur er til 11. júní nk.

Stjórnin hvetur allar sveitarstjórnir að taka Grænbókina til umræðu og senda inn umsögn um málið í samráðsgátt stjórnvalda.

Grænbókin var gefin nýlega út af starfshópi um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga og stendur kynning á henni nú sem hæst. Er grænbókinni m.a. ætlað að hvetja til umræðu um núverandi stöðu, helstu viðfangsefni og framtíðarsýn fyrir sveitarstjórnarstigið. Þá eru settar fram einar 50 spurningar um sem sveitarstjórnarfólk er meðal annarra hvatt til að ræða um.

Vinna vegna hvítbókar fer svo fram samhliða úrvinnslu þeirra athugasemda sem berast vegna grænbókarinnar. Er gert ráð fyrir að hvítbókin verði tilbúin til birtingar í samráðsgáttinni í júlí eða ágúst nk. með umsagnarfrest fram undir miðjan septembermánuð.

Við boðun aukalandsþings var litið til þess, að ráðherra sveitarstjórnarmála stefnir að því að mæla snemma á komandi haustþingi fyrir tillögu að stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga. Mikilvægt er að sveitarstjórnarfólk komi saman og ræði tillöguna áður en hún kemur til kasta Alþingis og varð niðurstaðan sú aukalandsþingið yrði 6. september nk.

Þess má svo geta að formaður lýsti því í ræðu sinni á landsþinginu sem haldið var 29. mars sl. að boða þyrfti til aukalandsþings vegna stefnumarkandi áætlunargerðar á vegum ríkisins. Kveðið er á um það í grein 3.1.3 í stefnumörkun sambandsins, að stefnumótandi ákvarðanir verði ekki teknar nema með aðkomu landsþings:

Sambandið styður við stækkun og eflingu sveitarfélaga. Stefnumótandi ákvarðanir verða ekki teknar nema með aðkomu landsþings.

Í starfshópi um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga eiga sæti tveir fulltrúar ráðherra sem eru Valgarður Hilmarsson, fyrrverandi sveitarstjóri Blönduósbæjar og formaður starfshópsins, og Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Akureyrarbæ, og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem eru Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins og bæjarstjóri í Hveragerði og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Kveðið er á um skipan starfshópsins í reglugerð nr. 1245/2018. Hlutverk starfshópsins er að gera tillögu til ráðherra um áætlunina í samræmi við áherslur ráðherra og í samráði við ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Einnig skal tekið mið af stefnumörkun sambandsins, byggðaáætlun og sóknaráætlunum.

Með starfshópnum starfa: 

  • Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti,
  • Sigurður H. Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og
  • Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins.
Verkefnisstjóri er Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, en auk hennar vinnur Tinna Dahl Christiansen, sérfræðingur í sama ráðuneyti, fyrir starfshópinn.

Aukalandþingið verður  á Grand hóteli, kl. 10:00-14:30 og fer fram eins og áður segir, föstudaginn 6. september nk.