29. mar. 2019

Mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni vel saman

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga lagði í setningarávarpi sínu á XXXIII. landsþingi, áherslu á að ríki og sveitarfélög eyði ekki orku sinni frekar en orðið er í að kljást sín á milli. Verkefnin fram undan væru næg án þess. Hún ítrekaði jafnframt mikilvægi þess að tryggja beri sveitarfélögum nauðsynlega tekjustofna í samræmi við þau fjölbreyttu verkefni sem þeim hefur verið falið.

Í ávarpi sínu vék Aldís að mörgum af þeim brýnu verkefnum sem stjórnvöld standa frammi fyrir um þessar mundir.

Um stöðu mála á vinnumarkaði sagði hún, að kjarasamningar á almennum markaði eigi að vera leiðandi fyrir kjarasamninga á landinu. Sveitarfélög og hið opinbera megi ekki taka þar forystu enda verði kjarasamningar að byggja á verðmætasköpun útflutningsgreina.

Varðandi sameiginlegu kjarastefnu ríkis og sveitarfélaga, sagði Aldís, að áhersla væri lögð á að tryggja samkeppnishæfni hins opinbera á vinnumarkaði og jafnræði í launasetningu opinberra starfsmanna. Verja þurfi þá kaupmáttaraukningu sem almenningur hafi notið undanfarin ár og stefna að því kaupmáttur aukist án þess að það raski stöðugleika efnahagskerfisins. Í því felist stærsta áskorun komandi samningalotu.

Samhliða þurfi sveitarfélögin að búa sig undir aukinn kostnað vegna nýrra kjarasamninga. Launakostnaðarhækkanir vegna bættra kjara hjá þeim lægstlaunuðu, sé hækkun sem sveitarfélögin axli með glöðu geði, en flest bendi til þess að herða verði sultarólina m.t.t. þess aukna kostnaðar sem af kjarasamningum getur hlotist.

En um leið og við ræðum um að herða sultarólina þá er einnig rétt að muna að sveitarfélög verða af umtalsverðum tekjum vegna svartrar atvinnustarfsemi.

Aldís sagði jafnframt ánægjulegt að geta sagt frá því að hún, framkvæmdastjóri og starfsmenn, hafi haldið reglulega samráðsfundi með ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og mánaðarlega vinnufundi með félags- og barnamálaráðherra. Einnig hafi verið rætt við heilbrigðisráðherra og línur lagðar fyrir reglulega vinnufundi með ráðherranum. Samstarf við aðra ráðherra sem og forsætisráðherra hafi einnig verið með besta móti og þyki þetta verklag hafa skilað góðum árangri og þéttu og góðu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.

Hugmyndir um skerðingu á framlögum í Jöfnunarsjóð hafi því komið sem þruma úr heiðskíru lofti og í fullkomnu ósamræmi við þetta góða samstarf. Að breyta forsendum fyrir framlögum ríkisins til Jöfnunarsjóðs, með því að frysta framlögin næstu tvö árin, sé með öllu óásættanlegt.

Sveitarfélögin eru hornsteinn lýðræðis í landinu og ein meginstoð velferðar íbúanna. Þeim ber að tryggja sjálfstjórn og nauðsynlega tekjustofna í samræmi við þau fjölbreyttu verkefni sem þeim hafa verið falin. Verði tekjur sveitarfélaga skertar frá því sem nú er, þegar útlitið er jafn svart og raun ber vitni og tekjubrestur er víða orðinn að staðreynd, munu sveitarfélög, sérstaklega á veikustu svæðunum, eiga í erfiðleikum með að veita þá þjónustu sem þeim ber. Slíka stöðu viljum við forðast með öllum tiltækum ráðum.

Af öðrum viðamiklum málum sveitarstjórnarstigsins sem Aldís vék að má nefna eflingu sveitarstjórnarstigsins með tilliti til áskorana framtíðarinnar.

Við sveitarstjórnarmenn þurfum að taka umræðuna um það hvernig við teljum að hægt sé að veita íbúum sveitarfélaga svo til sambærilega þjónustu. Við þurfum að efla sveitarstjórnarstigið þannig að það geti tekist á við áskoranir framtíðarinnar. Það gerum við með stærri og öflugri sveitarfélögum. Sveitarfélögum sem búa yfir slagkrafti og getu til að standa undir bæði þjónustustigi og þeim kostnaði sem við þá þjónustu sem hverju sveitarfélagi ber að veita, án þess að vera um of háð fjárframlögum frá öðrum í gegnum jöfnunarsjóð.

Nálgast má ávarp formanns sambandsins í heild sinni hér að neðan. 

 (Ljósm. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður, flytur setningarávarp sitt á XXXIII. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga)