Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaaeldi er nú til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga mættu til fundar hjá nefndinni í síðastliðinni viku þar sem sjónarmið sveitarfélaga um skýrslu Ríkisendurskoðunar voru reifuð og fulltrúar sambandsins svöruðu spurningum nefndarmanna.
Helstu áhersluatriði sambandsins:
- Nauðsyn sé á heildarstefnumörkun í málaflokknum sem sé unnin í samvinnu við sveitarfélög.
- Sátt þarf að nást um framkvæmd, eftirlit og umfang sjókvíaeldis við Íslands strendur. Eftirlit þarf að vera virkt og til staðar í hverjum landshluta.
- Sveitarfélög þurfa að hafa meiri aðkomu að ákvarðanatöku um umfang sjókvíaeldis svo sátt náist um fiskeldisstarfsemi í nærsamfélögum.
- Sveitarstjórnir eru meðvitaðar um að það útheimtir verulega fjármuni að byggja upp nauðsynlega innviði til að nýta þau tækifæri sem felast í fiskeldisstarfsemi. Um er að ræða mjög stórt byggðamál sem getur gjörbreytt íbúaþróun á þeim svæðum sem starfsemin fer fram.
- Hanna þarf kerfi í kringum laxeldi þannig að sveitarfélögin hafi fjárhagslegan ábata af sjókvíaeldi og að þeim tekjum verði skipt á sanngjarnan hátt þegar horft er til áhrifa af starfseminni.
Samband íslenskra sveitarfélaga væntir þess að unnið verði þétt með sveitarfélögunum við endurskoðun þess kerfis sem komið hefur verið á vegna sjókvíaeldis og vandað verði til verka við alla laga- og reglugerðarsetningu. Fyrir liggur auk þess nýleg skýrsla Boston Consulting Group um stöðu og framtíð sjókvíaeldis á Íslandi. Vonir standa til þess að skýrslan geti orðið grundvöllur fyrir árangursríkar breytingar á málaflokknum, sveitarfélögunum og landinu öllu til heilla.
Skýrslan á vef stofnunarinnar.