03. nóv. 2016

Stjórn sambandsins vill gistináttaskatt og bílastæðagjöld

Skýrsla starfshóps sambandsins um auknar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum var lögð fram til umfjöllunar á fundi stjórnar sambandsins 28. október sl.  Stjórnin telur þá stöðugreiningu og tillögur, sem fram koma í skýrslunni, vera mikilvægt gagn fyrir sveitarfélögin í viðræðum þeirra við ríkið um þetta mikilvæga mál. Að áliti stjórnarinnar er það grundvallarforsenda þess að ferðaþjónusta hér á landi geti talist sjálfbær að tryggt verði eftir megni að sú hraða þróun sem orðið hefur í ferðaþjónustu hér á landi bitni ekki á opinberri þjónustu við íbúa. Liður í því er að sveitarfélögin fái tekjur til þess að standa undir uppbyggingu og viðhaldi innviða sem nýtast ferðaþjónustunni. 

Stjórnin tekur einróma undir þær niðurstöður starfshópsins að það séu einkum tvær leiðir sem eru færar til að tryggja framangreint markmið:

  1. Að lög um gistináttaskatt verði endurskoðuð þannig að skatturinn verði hækkaður, undanþágum verði einnig fækkað og að tekjur af skattinum renni óskertur til uppbyggingar innviða sem nýtast ferðaþjónustunni, þannig að hluti hans renni beint til sveitarfélaga og hluti til úthlutunar á vegum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, og
  2. Að heimilt verði að taka bílastæðagjald við ferðamannastaði, til að standa undir uppbyggingu á þeim.

Stjórnin fól formanni og framkvæmdastjóra sambandsins að vinna að framgangi framangreindra tillagna.