Stjórn sambandsins fordæmir innrás Rússa í Úkraínu

Í ljósi atburða undanfarinna daga samþykkti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eftirfarandi bókun í byrjun fundar í dag 25. febrúar 2022:

Fáni Úkraínu

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkir einróma að taka undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, um að evrópskir sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsi yfir stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra.

Sveitarfélagasambandið í Úkraínu er meðlimur í CEMR og undanfarin ár hefur átt sér mikil uppbygging í úkraínskum sveitarfélögum, með stuðningi evrópskra sveitarfélaga, til að efla sjálfsforræði þeirra og bæta þjónustu. Stjórnin hvetur kjörna fulltrúa í íslenskum sveitarfélögum til að undirrita yfirlýsinguna.

Jafnframt er vakin athygli á að CEMR beinir því líka til evrópskra sveitarfélaga að lýsa upp byggingar sínar með bláum og gulum lit þjóðfána Úkraínu og draga úkraínska fánann við hún til að undirstrika samstöðu evrópskra sveitarfélaga með Úkraínu.