Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við skýrslu, sem Samtök Atvinnulífsins (SA) gáfu nýlega út um fjármál 12 stærstu sveitarfélaga landsins, í minnisblaði sem Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hefur tekið saman.
Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við skýrslu, sem Samtök Atvinnulífsins (SA) gáfu nýlega út um fjármál 12 stærstu sveitarfélaga landsins, í minnisblaði sem Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hefur tekið saman.
Betur má ef duga skal – fjármál 12 stærstu sveitarfélaga Íslands er skýrsla sem SA gaf út í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Í minnisblaði sínu tekur Sigurður, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs, saman fjölmörg atriði sem eru aðfinnsluverð og standast ekki nánari skoðun.
Má þar fyrst nefna skattheimtu sveitarfélaga, sem hefur að mati SA vaxið töluvert umfram það sem réttlæta má með auknum lögbundnum verkefnum. Þessa niðurstöðu byggja samtökin á hækkunum á hámarksútsvari allt frá árinu 1993 og er fjórðungur þeirra sagður til kominn, ekki vegna nýrra lögbundinna verkefna, heldur almennra hækkana.
Eins og Sigurður bendir á, velja samtökin í þessari greiningu sinni, að líta eingöngu til útsvarsbreytinga vegna yfirfærslu á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Fyrir vikið er horft fram hjá hækkunum sem rekja má til breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga, en þar skipti langmestu afnám aðstöðugjalds sem sveitarfélögum var bætt upp með hækkun útsvarsálagningar árið 1994. Síðar var hámarksútsvar svo hækkað með lögum m.a. til að bæta sveitarfélögum upp íþyngjandi laga- og reglugerðarbreytingar, vegna skattalagabreytinga á árunum 2001 og 2002 og svo vegna falls bankanna árið 2008.
Þá hrekur Sigurður einnig fullyrðingar þess efnis, að skattstofnar sveitarfélaga hafi breikkað. Hið rétta sé, að kvarnast hafi umtalsvert úr útsvarsstofni þeirra með tilkomu ýmissa umfangsmikilla frádráttarliða vegna lögbundinna lífeyrissjóða og viðbótarlífeyris. Nú sé svo búið, að draga megi allt að 8% iðgjöld til öflunar lífeyris af launatekjum, sem lækkar svo aftur stofn til álagningar útsvars sem því nemur. Frádrátturinn felur í raun í sér að skattlagningu er frestað þar til að töku lífeyris kemur. Þó mun sá hluti þessa frádráttar, sem nýttur er til kaupa á íbúðarhúsnæði, ekki koma til skattlagningar hjá sveitarfélögum. Á árinu 1993 var óheimilt að draga iðgjald frá tekjum og þannig var ótvírætt um að ræða tvísköttun.
Hvað launakostnað varðar og gagnrýni SA á „forgang“ launahækkana hjá sveitarfélögum bendir Sigurður m.a. á að laun starfsmanna sveitarfélaga hafi hækkað aðeins lítillega umfram starfsmenn á almennum markaði. Það megi rekja til áherslu á hækkun lægstu launa, sem jafnan er sveitarfélögum dýr, þar sem meðallaun starfsmanna sveitarfélaga eru töluvert lægri en á almennum markaði.
Umfjöllun um skuldir og skuldbindingar er jafnframt afar ónákvæm, heldur Sigurður áfram. Mestu skipti í þeim efnum, að ekki er greint á milli skulda annars vegar og skuldbindinga hins vegar. Lífeyrisskuldbindingar hafa hækkað verulega m.a. vegna lýðfræðilegrar þróunar. Þá hafi skuldbindingar sveitarfélaga (samstæða A- og B-hluta) hækkað frá 2010 til áætlunar 2018 um 93% á föstu verðlagi, en skuldir lækkað um 33%.
Einnig gagnrýnir Sigurður harðlega þá höfuðáherslu, sem SA leggur á skuldir og skuldbindingar samstæðu A og B-hluta, í þeim samanburði sem gerður er á fjárhagsstöðu milli sveitarfélaga. Í A-hluta er sú starfsemi sveitarfélaga sem einkum er fjármögnuð með sköttum, en í B-hluta eru fyrirtæki og stofnanir sem eru sjálfstæðar rekstrareiningar. Fyrirtæki í B-hluta margra sveitarfélaga eru mjög fjármagnsfrek, einkum veitur og hafnir, og séu skuldir þessara fyrirtækja eðli máls samkvæmt miklar. B-hluti annarra sveitarfélaga er lítill að umsvifum og telur einkum þjónustustofnanir.
Samanburður á skuldum sveitarfélaga, sem eru ólík að þessu leyti, sé af þessum sökum varasamur enda fjármagnsskipan mjög ólík. Eins þurfi að hafa í huga, að í reikningshaldi sveitarfélaga eru skuldir fyrirtækja í eigu fleiri en eins sveitarfélags, færðar á reikning þess sem á meirihlutann og koma þær skuldir því ekki inn á reikninga minnihlutaeigenda. Fyrir vikið reiknast, sem dæmi, skuldir Reykjavíkurborgar hærri en raun er og meðeigenda, s.s. að Orkuveitu Reykjavíkur, lægri.
Enda þótt hér hafi aðeins verið tæpt á því helsta í minnisblaði Sigurðar má glöggt sjá að umræddri skýrslu er þar efnislega vísað aftur til föðurhúsa.
Þeim sem vilja kynna sér efni minnisblaðsins í heild er bent á hlekk hér að neðan.