Stefnuleysi í vindorkumálum gagnrýnt

Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um stöðu sveitarfélaga á málþingi um vindorku sem fór nýlega fram á vegum verkefnastjórnar 4. áfanga rammaáætlunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Stefnuleysi í orkumálum og óskýrt lagaumhverfi er á meðal þess sem getur torveldað sveitarfélögum að takast á nýjar áskoranir í vinorkunýtingu.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um stöðu sveitarfélaga á málþingi um vindorku sem fór nýlega fram á vegum verkefnastjórnar 4. áfanga rammaáætlunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Stefnuleysi í orkumálum og óskýrt lagaumhverfi er á meðal þess sem getur torveldað sveitarfélögum að takast á við nýjar áskoranir í vinorkunýtingu.

Í máli Guðjóns kom m.a. fram að heildstæður lagarammi ásamt skýrri stefnu og leiðbeiningum frá ríkinu, sé ein helsta forsenda þess að sveitarfélög geti með góðu móti leyst úr þeim verkefnum sem þau standi frammi fyrir í vindorkumálum. Vindorka er ein umhverfisvænasta orka sem í boði er og mikilvægt er að vandað verði til allrar ákvarðanatöku, s.s. varðandi sjónræn áhrif, hljóðmengun og áhrif á fuglalíf, auk þess sem finna verði vindorkuverum hentuga staði í landslagi.

Hægagangur, kyrrstaða og stefnuleysi

Guðjón lýsti einnig efasemdum um gagnsemi þess að fjalla um smærri vindorkuver á vettvangi rammaáætlunar. Hægagangur við vinnslu og afgreiðslu rammaáætlunar sé ávísun á kyrrstöðu, sem geti unnið gegn stefnu stjórnvalda á öðrum sviðum, svo sem aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þar sem lögð er áhersla á orkuskipti í samgöngum og iðnaði. Ef ekki verði breyting á þeirri stöðu sé fyrirsjáanlegt að lítil vindorkuver, minni en 10 MW, rísi víða um land. Þetta sé þróun sem verði að forðast, þar sem viðurkennt er að besta leiðin til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vindorkuvera sé að byggja stærri vindmylluþyrpingar, á færri stöðum.

Varpaði Guðjón fram, í þessu sambandi, þeim möguleika að fella stór vindorkuver (>50 MW) undir rammaáætlun og fela sveitarstjórnum ákvarðanir varðandi minni vindorkuver.

Þá vék Guðjón einnig að því stefnuleysi sem virðist einkenna umræðuna um orkumál hér á landi og ýti undir kyrrstöðu í málaflokknum. Þetta birtist m.a. í því að ekki liggi fyrir skýr afstaða af hálfu stjórnvalda varðandi hugmyndir um sæstreng til Evrópu og áhrif þess á orkuframleiðslu hér á landi, verði strengurinn lagður.

Gæta verður hófs við endurskoðun landsskipulagsstefnu

Í máli sínu áréttaði Guðjón mikilvægi þess að hófs verði gætt í þeirri vinnu sem fram undan er við endurskoðun landsskipulagsstefnu, þar sem m.a. verður fjallað um vindorkunýtingu í tengslum við landslagsvernd. 

Einnig ræddi hann um fyrirhugaðar friðlýsingar landsvæða skv. 2. áfanga rammaáætlunar og taldi of langt gengið að útiloka með öllu vindorkunýtingu á stórum landsvæðum innan náttúruverndarsvæða og á jöðrum slíkra svæða. Þá lýsti hann þeirri skoðun, að of mikið væri gert úr hugsanlegum áhrifum vindorkunýtingar á ferðaþjónustu við mótun stefnu um orkunýtingu.

Undanþágur frá fasteignamati orkumannvirkja 

Að lokum vék Guðjón að úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli Skeiða- og Gnúpverjahrepps gegn Landsvirkjun, sem birtur var í nóvember 2017 og kveður á um að 80% af hverju orkumannvirki sé undanþegið fasteignamati, sem dæmi um úrelta og ófullburða lagaumhverfi hér á landi. Taldi hann vera mikið vafamál að sú niðurstaða samræmdist ríkisstyrkjareglum EES-réttar, þar sem í henni felist ívilnun stjórnvalda til fyrirtækja í samkeppnisrekstri.

Málþingið fór fram í fundarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu þann 9. janúar sl. og var það tekið upp. Gestafyrirlesari á málþinginu var Graham Marchbank. Rætt var við hann í fréttum Stöðvar 2 (10.01.2019 - Íslendingar þurfa áætlanir vegna vindorku).

Íslendingar þurfa áætlanir vegna vindorku