Annað hvert ár kannar hag- og upplýsingasvið sambandsins starfskjör sveitarstjórnarfólks. Nú liggja fyrir niðurstöður um kjörin eins og þau voru á árinu 2021 og má finna hér. Upplýsinganna var aflað með rafrænum spurningalista sem 56 sveitarfélög af 69 svöruðu.
Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga sem nýtast sveitarstjórnum við ákvörðun á greiðslum til framkvæmdastjóra sveitarfélaga (bæjar- og sveitarstjóra), kjörinna fulltrúa og einstaklinga sem starfa í nefndum á vegum sveitarfélaganna.
Í skýrslunni kemur fram að mánaðarlaun framkvæmdastjóra sveitarfélaga og greiðslur til kjörinna fulltrúa eru mishá. Fara þau einkum eftir stærð og umfangi sveitarfélaga og því er umfjöllun um starfskjör í skýrslunni skipt eftir stærð sveitarfélaga.
- Árið 2021 var algengast að laun framkvæmdastjóra væru á bilinu 1.200-1.800 þús. kr. á mánuði. Launadreifing er töluverð eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
- Launagreiðslur til kjörinna fulltrúa eru mjög misháar eftir sveitarfélögum, enda er umfang starfsins mismikið og skiptir stærð sveitarfélaga þar mestu. Aðeins í Reykjavíkurborg eru kjörnir í fullu starfi. Algengustu mánaðarlaun kjörinna fulltrúa voru 100-149 þús. kr. árið 2021.