Starf Jónsmessunefndar í uppnámi

Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að samstarfið í samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, svokallaðri Jónsmessunefnd, hafi verið í uppnámi undanfarið.

Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að samstarfið í samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, svokallaðri Jónsmessunefnd, hafi verið í uppnámi undanfarið. Það gerðist eftir að fjármálaráðuneytið sett fram, án nokkurs samráðs, áætlun um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3,3 milljarða króna í tillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024. Hann sagði að með samstilltu átaki sambandsins og sveitarfélaganna hefði tekist að stöðva þessi áform. Í máli Karls kom fram að fundum í samstarfsnefndinni hafi farið fækkandi síðustu misseri. Á árinu 2016 hefði verið haldnir tíu fundir í samstarfsnefndinni, þrettán fundir árið 2017 og fram að síðustu sveitarstjórnarkosningum á árinu9 2018 hafi verið haldnir 5 fundir en það sem af er þessu ári hafi einungis verið haldnir tveir fundir í nefndinni.

Karl benti á að hagsmunagæsla sambandsins í þágu sveitarfélaganna og samstarfið við ríkið hafi skilað góðum árangri ekki síst á sviði lífeyrismála. Þannig hafi ríkið tekið á sig 24 milljarða halla sem sveitarfélögin báru ábyrgð á í A-deild LSR auk 6 milljarða króna lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila sveitarfélaga í B-deildum LSR og Brúar. Þá hefði tekist samkomulag við ríkið um hækkun daggjalda um 1,5 milljarða króna og 800 milljóna króna tilfærsla vegna breytinga á húsaleigubótakerfinu. Ennfremur var samið um 1,5 milljarða króna aukinn tilflutning fjár frá ríki til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Hann sagði að þótt ýmislegt hefði áunnist í lífeyrismálum væru enn óleyst verkefni og sama ætti við um mál sem snúa að hjúkrunarheimilum og dagdvölum. Benti hann á að hallarekstur sveitarfélaganna á því sviði losaði um einn milljarð á ári hverju.

Hann sagði að meðal sveitarstjórnarmanna væri óánægja með ýmis atriði í samskiptunum við ríkið sem setti stöðugt fram auknar kröfur á hendur sveitarfélögunum sem kölluðu á aukin útgjöld. Þannig vantaði meira fé vegna þjónustu við fatlaða og auka þyrfti fjármagn til að standa undir rekstri grunnskólans. Þá þyrfti að hækka daggjöld til hjúkrunarheimila og auka fjárveitingar til samgöngubóta. Karl sagði að með réttu ætti gistináttagjald að renna til sveitarfélaganna.

Karl gerði að umtalsefni fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2023 sem samþykkt var að mæla með á nýafstöðu landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í þessari ályktun er gert ráð fyrir að sveitarfélögum muni fækka verulega árið 2022 og enn frekar fyrir árið 2028. Í máli Karls kom fram að umrædd stækkun sveitarfélaga myndi fela í sér þriggja til fimm milljarða króna hagræðingu. Þá væri gert ráð fyrir verulegum stuðningi við sameiningar úr Jöfnunarsjóði.