Stafrænt ráð sveitarfélaganna hefur hafið störf

Í byrjun ágústmánaðar óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því að við landshlutasamtök sveitarfélaga að tilnefna fulltrúa landshlutanna og Reykjavíkurborgar inn í stafrænt ráð til að styðja við stefnumótun og forgangsröðun um stafræna framþróun sveitarfélaga og að til verði samstarf sveitarfélaga á landsvísu um þau mál.

Í lok október hóf ráðið störf sín og hefur nú þegar fundað þrisvar sinnum.  Í ráðinu sitja Elís Pétursson fyrir SSNE, Eydís Ásbjörnsdóttir fyrir hönd SSA, Sævar Freyr Þráinsson fyrir SSV, Álfhildur Leifsdóttir fyrir SSNV, Óskar J. Sandholt fyrir Reykjavíkurborg, Áslaug Hulda Jónsdóttir fyrir SSH, Friðrik Sigurbjörnsson fyrir SASS, Kjartan Már Kjartansson fyrir SSS og Jón Páll Hreinsson fyrir FV.  Fjóla María Ágústsdóttir breytingarstjóri stafrænnar þróunar hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga starfar með ráðinu en á fyrsta fundi ráðsins var Sævar Freyr valinn formaður ráðsins.

Hlutverk ráðsins er að:

 • styrkja samstarf sambandsins við sveitarfélög um stafræna framþróun þeirra og styðja við vinnu sambandsins þar að lútandi.
 • skapa traustari grunn fyrir markvissa forgangsröðun samstarfsverkefna sveitarfélaga um stafræna framþróun og hagsmunagæslu sambandsins fyrir þeirra hönd, sérstaklega gagnvart ríki og hugbúnaðarfyrirtækjum.
 • stuðla að samhæfðri vinnu sveitarfélaga að stafrænni framþróun.

Helstu verkefni ráðsins eru eftirfarandi:

 • Taka þátt í undirbúningi stefnumörkunar sambandsins um stafræna framþróun sveitarfélaga og undirbúningi samstarfsverkefna sveitarfélaga.
 • Leggja mat á forgangsröðun stafrænna þróunarverkefna sveitarfélaganna og gera tillögur um forgangsröðun og stjórnunar- og fjármögnunarfyrirkomulag til stjórnar sambandsins.
 • Styðja við vinnu sambandsins er snýr að miðlægu samstarfi sveitarfélaga um stafræna þróun og vinnu þess að eftirfylgni samstarfsverkefna.
 • Vekja athygli á stafrænum málum sem ráðið telur að þarfnist úrlausnar.
 • Vera til ráðgjafar við undirbúning stærri viðburða sambandsins í sviði stafrænnar þróunar.
 • Styðja við umsagnagerð sambandsins um stefnumótun og laga- og reglugerðarsetningu ríkisins sem tengist stafrænni framþróun.
Auk þess starfar faghópur um stafræna umbreytingu innan sveitarfélaganna og er til stuðnings stafrænu ráði sveitarfélaga:
 • Í faghópnum eiga sæti faglegir fulltrúar landshlutanna og sérfræðingar sveitarfélaga í stafrænum málum. Hópurinn getur kallað til sérfræðinga í málaflokkum sveitarfélaga til að dekka ólík þekkingarsvið.
 • Meginhlutverk hópsins er að vera umræðuvettvangur um stafræna þróun sveitarfélaga og veita stafrænu ráði sveitarfélaga faglegan stuðning
 • Með tilliti til þess skulu fundir hópsins taka mið af fundum stafræna ráðsins.
 • Hópurinn aðstoðar við greiningu á stöðu stafrænna mála sveitarfélaga og hugmynda um sameiginleg verkefni sveitarfélaga. Hann skal stuðla að því að fyrir hendi sé yfirsýn yfir stafræna þróun sveitarfélaga og stafræn samstarfstækifæri.
 • Hópurinn getur sett fram tillögur að málum sem ráðið ætti að fjalla um.
 • Hópurinn aðstoðar við þekkingarmiðlun til sveitarfélaga, m.a. á stafraent.samband.is, og til stuðnings samvinnu sveitarfélaga í stafrænum málum.
 • Breytingastjóri stafrænnar framþróunar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur umsjón með starfi hópsins.