Stafræn framtíð hins opinbera – hvernig byrjum við?

Dagur upplýsingatækninnar 2018, UT-dagurinn, fer fram 6. desember nk. með ráðstefnu á Grand hóteli í Reykjavík.  Yfirskrift dagsins er stafræn framtíð hins opinbera – hvernig byrjum við?

Dagur upplýsingatækninnar 2018, UT-dagurinn, fer fram 6. desember nk. með ráðstefnu á Grand hóteli í Reykjavík.  Yfirskrift dagsins er stafræn framtíð hins opinbera - hvernig byrjum við?

Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það markmið, að árið 2020 verði stafræn samskipti megin samskiptaleið ríkisins við fyrirtæki og almenning. Í stjórnarsáttmála er jafnframt sett fram markmið um að landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt erindum sem beinast að stjórnvöldum. 

Yfirskrift UT-dagsins, stafræn framtíð hins opinbera, hvernig byrjum við? vísar til þess að vinna er hafin við að færa þjónustu opinberra aðila yfir í stafrænt umhverfi. Þá er í samkomulag ríkis og sveitarfélaga fyrir árin 2019-2023 fjallað sérstaklega um uppbyggingu miðlægrar þjónustugáttar og uppbyggingu stafrænna innviða.

Á ráðstefnunni kynnir m.a. verkefnastofa um stafrænt Ísland hönnun opinberrar þjónustugáttar hér á landi og fjallað verður um þjónustuhönnun hjá opinberum aðilum. Af öðrum áhugaverðum erindum má nefna erindi um stafræna vegferð fjárhagsaðstoðar og um stafræna umbreytingu finnskrar stjórnsýslu. Þá verða niðurstöður nýsköpunarvogarinnar birtar í fyrsta sinn. Þátttakendur í UT-deginum eiga því áhugaverða ráðstefnu í vændum.

Að UT-deginum standa fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Ský og hefur dagurinn verið haldinn árlega frá árinu 2006. Tilgangurinn er að fjalla um það sem er efst á baugi í upplýsingatæknimálum í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.