27. sep. 2018

Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga

  • Hof-akeyrir-2

Í lok árs 2015 var skipuð af innanríkisráðherra verkefnisstjórn er fékk það hlutverk að greina íslenska sveitarstjórnarstigið og finna tækifæri og leiðir til að styrkja það. Skipaður formaður var Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir og gerði hún skýrslu verkefnisstjórnar frá því í júlí 2017 skil á XXXII. landsþingi sambandsins, þar sem efni hennar kemur við sögu í umræðuhópum þingsins síðar í dag.

Á meðal tillagna verkefnisstjórnarinnar er að hækka lágmarksíbúafjölda í þrepum þannig að frá og með 1. janúar 2026 búi að lágmarki 1.000 manns í sveitarfélögum. Einnig leggur verkefnisstjórnin til að hluti af tekjum jöfnunarsjóðs verði nýttur til að auðvelda sameiningar, svo að mismunandi fjárhagsstaða hindri ekki sameiningu.

Þá er lagt til að sameiningar vegna lögbundins lágmarksíbúafjölda verði ekki bornar upp í íbúakosningum og að stefna til 20 ára verði mótuð fyrir sveitarstjórnarstigið samhliða þessum aðgerðum. Einnig að þjónustusvæði verðir skilgreind og tillit tekið til ytri aðstæðna sem geta valdið því að kostnaður sveitarfélaga vegna nærsamfélagsþjónustu sé breytilegur.

Í máli Eyrúnar Ingibjargar kom m.a. fram að verkefnisstjórnin hafði víðtækt samráð við sveitarstjórnarfólk. Þá er í tillögum hennar einnig tekið tillit til eldri tillagna og aðgerða í sameiningarmálum sveitarfélaga og að samráðsferlið hafi leitt í ljós almenna andstöðu við 3. stjórnsýslustigið.

Eyrún Ingibjörg hefur áður kynnt skýrslu verkefnisstjórnarinnar á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í fyrra.