Staða kjarasamningsviðræðna sambandsins, áskoranir kjaraviðræðna og jöfnun launa milli markaða

Ellisif Tinna Víðisdóttir, lögfræðingur kjarasvið sambandsins, og Helgi Aðalsteinsson, hagfræðingur kjarasviðs sambandsins, fóru yfir stöðuna í yfirstandandi kjaraviðræðum á landsþingi sveitarfélaga í dag.

Helgi Aðalsteinsson og Ellisif Tinna Víðisdóttir í ræðustól á landsþingi sambandsins í dag.
Ljósm.: Ingibjörg Hinriksdóttir

Eins og gefur að skilja er verkefnið viðamikið og flókið en 38 kjarasamningar við 58 stéttarfélög renna út á þessu ári. Kjarasamningar 34 stéttarfélaga gilda út mars og kjarasamningar 24 stéttarfélaga gilda út september. 

Í yfirferð sinni greindu þau frá því að kjarasvið byrjaði að undirbúa núverandi kjaraviðræður fyrir rúmlega ári síðan og hófust kjaraviðræður formlega við heildarsamtök opinberra starfsmanna í lok janúar. Góður gangur var í viðræðunum sambandsins við stéttarfélögin þegar ákveðið var að opinberir vinnuveitendur skyldu koma sameinaðir til viðræðna við heildarsamtök opinberra starfsmanna, svo báðir aðilar mættu sameinaðir til leiks . Töluverð áskorun hefur verið að stilla saman strengi á milli opinberra vinnuveitenda. Þau telja þó ljóst að það getur verið kostur ef opinberir vinnuveitendur mæta sameinaðir til leiks en til þess að það megi skila sem bestum árangri þurfi enn lengri undirbúningur að eiga sér stað. 

Viðræður hafa að undanförnu verið um launalið og önnur tiltekin málefni milli heildarsamtaka opinberra vinnuveitenda og opinberra starfsmanna. Umræðu um tiltekin málefni verður síðan beint á sameiginlegan vettvang opinberra vinnuveitenda og heildarsamtaka launafólks en önnur málefni verða eftir atvikum rædd við einstök stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga á samningstímanum samkvæmt verkáætlun.

Markmið opinberra vinnuveitenda er: 

  • að gera 13 til 14 mánaða skammtíma kjarasamninga er gildi út maí 2024, eru gerðir á grundvelli kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og sameiginlegrar kjarastefnu ríkis og sveitarfélaga fyrir 31. mars 2023 en nú stefnir í að þeir verða til 12 mánaða.
  • að gera viðræðuáætlanir við heildarsamtök launafólks og einstök stéttarfélög um málefni sem rædd verða á gildistíma skammtímasamninganna til undirbúnings langtímasamninga er taki við á árinu 2024

Þá ræddu þau samkomulag sem ríki og sveitarfélög annars vegar og heildarsamtök launafólks á opinberum vinnumarkaði hins vegar gerðu árið 2016 um grundvallarbreytingar á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði. Í samkomulaginu voru gefin skýr fyrirheit um að í framhaldi af breytingum á lífeyriskjörum yrði ráðist í vinnu er miðaði að því að jafna laun og önnur kjör á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt 7. grein samkomulagsins.

Viðræður og greiningarvinna meðal opinberra vinnuveitenda og bandalaga stéttarfélaga  er og verður í gangi undir fundastjórn ríkissáttasemjara.

Aðilar voru sammála um, samkvæmt 7. gr. samkomulags, að leggja sérstaka áherslu á greiningu á launamun milli opinberra og almenna markaðarins og þróa aðferðarfræði í því sambandi. Einnig voru aðilar sammála um að skilgreina hlutlæg viðmið um hvenær leiðrétta beri launamun einstakra hópa og að setja á laggirnar samráðshóp, skipaður fulltrúum opinberra starfsmanna og opinberum launagreiðendum. Samráðshópnum var ætlað að leggja fram tillögur að áætlun um hvernig markmiðum um jöfnun launa skuli náð með útfærslu á 6 – 10 árum.  Ríki og sveitarfélög skuldbundu sig til að leggja til fjármuni svo sett markmið gætu náðst.

Áfangasamkomulag á grundvelli 7. gr. samkomulags aðila var undirritað 23. mars síðastliðin en  nefnd um jöfnun launa samkvæmt 7. gr. vinnur enn að framkvæmd jöfnunar til framtíðar. Nefndin hefur ekki komist að endanlegri niðurstöðu um útfærslu framkvæmdar en aðilar komu sér saman um áfangasamkomulag um að opinberir launagreiðendur leggi fram 1.808 m.kr. til að leiðrétta hópa þar sem vísbendingar eru um að launamunur sé til staðar á milli markaða og að munurinn kunni að vera kerfislægur og ómálefnalegur. Hóparnir eiga það sameiginlegt að opinberir launagreiðendur eru að meginstofni til eini launagreiðandinn.

Heildarframlag sveitarfélaga sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kjarasamningsumboð fyrir og Reykjavíkurborgar til greiðslu launa og launatengdra gjalda er 948 m.kr. þar af er framlag sveitarfélaga utan Reykjavíkurborgar um 590 mkr.

Hóparnir sem um ræðir tilheyra heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem veitir klíníska þjónustu og menntastofnanir sem sinna kennslu.