Staða jafnréttismála á Íslandi kynnt fyrir evrópskum sveitarstjórnarmönnum

Pólitísk yfirstjórn Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, kom saman á veffundi 18. júní sl. Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga tók þátt í fundinum en hún er einn af varaforsetum samtakanna.

Á fundinum voru samþykktar stefnuyfirlýsingar m.a. með tilliti til stefnumótunar ESB um þróun landsbyggða í Evrópu.

Á málstofu um þau mál fór Aldís yfir mannfjöldaþróun hér á landi, árangursríkt samstarf ríkis og sveitarfélaga um ljósleiðaravæðingu landsbyggðanna og þeim sóknarfærum sem sú uppbygging býður upp á m.a. til að veita betri þjónustu í gegnum vefinn og hvernig góðir tæknilegir innviðir hafa skipt sköpum til að bregðast við Covid ástandinu.

Aldís var einnig annar aðalframsögumanna á málstofu um jafnrétti, mannréttindi og stöðu hins staðbundna lýðræðis í Evrópu. Hún sagði frá nýrri jafnréttislöggjöf sem tók gildi hér á landi í upphafi árs og felur í sér að sveitarfélög eiga eftir næstu sveitarstjórnarkosningar að gera breiðar jafnréttisáætlanir. Hún sagði einnig frá sértækum aðgerðum til að stuðla að auknu jafnrétti, s.s. jafnlaunavottuninni, verkefninu „Saman gegn ofbeldi“ og nýrri áætlun um forvarnir gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi meðal barna og ungmenna og hlutverki sambandsins í áætluninni.

Nánari upplýsingar á heimasíðu CEMR