Staða forvarnarverkefnis

Mánudaginn 28. ágúst heimsótti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar fékk hún kynningu á aðgerðaráætlun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021-2025.

Frá vinstri: Sunna Diðriksdóttir, Anna Guðrún Björnsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Arnar Þór Sævarsson og Alfa Jóhannsdóttir forvarnarfulltrúi sambandsins.

Innleiðing áætlunarinnar gengur vel en nú er 42% aðgerða lokið og 58% aðgerða eru hafnar og komnar vel á veg. Stór hluti aðgerða í áætluninni snúa að leik- og grunnskólum og hefur samstarfið við skólastjórnendur verið gott, nú eru meðal annars staðfest forvarnarteymi ofbeldis í öllum grunnskólum landsins.

Hlutverk forvarnarteyma ofbeldis er meðal annars að tryggja kennslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni inn í alla árganga grunnskóla, sjá til þess að fyrir hendi innan skólanna sé viðbragðsáætlun ásamt því að fylgja því eftir að allt starfsfólk skólanna ljúki netnámskeiði Barna- og fjölskyldustofu um grunnatriði kynferðisofbeldis gegn börnum og ungmennum, sem er aðgengilegt á vef Barna- og fjölskyldustofu og inn á vefgáttinni StoppOfbeldi.

Ein aðgerð þessarar aðgerðaráætlunar sneri að því að opnuð væri vefgátt þar sem náms- og fræðsluefni um málaflokkinn var gert aðgengilegt og í því skyni bendum við fólki á stoppofbeldi.namsefni.is þar sem má finna efni sem starfsfólk sem starfar með börnum og ungmennum getur nýtt sér í fræðslu. Efninu þar inni hefur verið skipt niður eftir aldri og skólastigum barna ásamt ítarefni.

Á mælaborði aðgerðaráætlunarinnar má sjá framgang hennar en þar er fylgt eftir þeim aðgerðum sem settar voru fram sem eru 26 talsins og skipt niður í sex meginþætti. Ábyrgðaraðilar aðgerða eru ýmist ráðuneyti, stofnanir og samtök. Mælaborðið er uppfært reglulega í samræmi við framgang mála. 

Mælaborð aðgerðaráætlunarinnar.