Sóknaráætlanir landshluta hafa almennt tekist vel

Framkvæmd sóknaráætlana landshluta hefur almennt tekist vel frá árinu 2015, samkvæmt niðurstöðum úttektar sem ráðgjafarfyrirtækið Evris hefur gert fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Í úttektinni var lagt mat á það hvort tekist hefði að ná markmiðum samninga um sóknaráætlanir og jafnframt bent á atriði sem betur mættu fara.

Framkvæmd sóknaráætlana landshluta hefur almennt tekist vel frá árinu 2015, samkvæmt niðurstöðum úttektar sem ráðgjafarfyrirtækið Evris hefur gert fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Í úttektinni var lagt mat á það hvort tekist hefði að ná markmiðum samninga um sóknaráætlanir og jafnframt bent á atriði sem betur mættu fara.

Aðrar helstu niðurstöður eru þær, að sóknaráætlanir hafa almennt treyst stoðir menningar í  landshlutum. Nokkur einhugur ríkir um að sóknaráætlanir hafi hóflega styrkt samkeppnishæfni landshlutanna. Þá er talsverður munur á afstöðu fólks þegar spurt er hvort sóknaráætlanir hafi tryggt gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna og fært vald frá ríki til sveitarfélaga.

Uppskiptingin í annars vegar uppbyggingarsjóð og hins vegar áhersluverkefni er talin hafa gefist vel. Samráðsvettvangur var skipaður í hverjum landshluta til að stuðla að lýðræðislegri aðkomu að verkefninu. Starfsemi þeirra hefur á hinn bóginn ekki gengið sem skyldi og finna þarf leiðir til að festa þá í sessi, eigi hugmyndin um breiða aðkomu haghafa í einstökum landshlutum að ganga eftir.

Af öðrum ábendingum má nefna, að stuðningur við menningartengd verkefni úr uppbyggingarsjóðum hefur aukist á tímabilinu á kostnað styrkja til atvinnuþróunar og nýsköpunar. Má að mati skýrsluhöfunda færa gild rök fyrir því að auka slagkraftinn með færri og stærri styrkjum. Einnig væri að þeirra mati skynsamlegt að innleiða hvata í uppbyggingarsjóðina, sérstaklega þann hluta sem snýr að atvinnuþróun og nýsköpun og vinna með því móti markvisst að því að auka samkeppnishæfni landshlutanna og um leið landsins í heild.

Undirbúningur er svo þegar hafinn á vegum ráðuneytisins vegna nýrra samninga um sóknaráætlanir landshluta, í samráði við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtök sveitarfélaga. Er úttekt Evris einmitt liður í þeim undirbúningi. Núgildandi samningarnir renna út í lok þessa árs.