25. apr. 2018

Snjallborgarráðstefna og borgarhakk

Deilibílar, snjallskýli, snjalltunnur og velferðartæknismiðja er á meðal þess sem tekið verður fyrir á snjallborgarráðstefnu Reykjavíkurborgar. Þá býður snjallborgin einnig upp á borgarhakk og eru milljón krónur í boði fyrir bestu framtíðarlausnina. Bætt þjónusta, hagkvæmari rekstur og aukin samfélagsþátttaka er á meðal þess sem snjallborgir segjast græða á snjallvæðingu.

Yfirskrift snjallborgarráðstefnunnar, sem fer fram í Hörpu 3 maí nk., er Nýsköpun í þágu borgarbúa og má í stuttu máli segja að fjallað verði vítt og breitt um snjallvæðingu Reykjavíkurborgar.

Borgarhakkið fer fram nokkru fyrr í ráðhúsi Reykjavíkur eða dagana 27. til 28. apríl, en markmið þess er að efla snjallborgina Reykjavík. Lýst er eftir hugmyndum að lausnum fyrir borgarlandið, lýðheilsu, menntun, menningu og bílaumferð, svo að dæmi séu nefnd. Þá er vettvangurinn einnig kjörinn fyrir sniðugar hugmyndir erlendis frá eða tillögur að tækifærum framtíðarinnar. Hugmynd er ekki skilyrði fyrir þátttöku og geta allir verið með sem vilja.

Snjallborgin-ReykjavikÁhugafólki um snjalltækni (Internet of Everything, IoE) má svo benda á Smart City Expo World Congress (SCEWC) sem áhugaverðan vettvang, en auk alþjóðlegra viðburða eru veittar snjallviðurkenningar  í hinum ýmsu flokkum á þessu alheimsþingi snjallsveitarfélaga.

Á síðasta ári hlaut hollenska borgin Amsterdam, sem dæmi, verðlaun fyrir nýjar lausnir í flokki Hringrásarhagkerfisins og umferðarlögreglan í kínversku borginni Shenzhen hlaut viðurkenningu í flokknum Öruggar borgir fyrir skynvæddar flutningalausnir og þróun „umferðargervigreindar“. Þá hljóta Snjalleyjur einnig verðlaun og hampaði sveitarstjórn bresku eyjarinnar Isle of Wight þeirri viðurkenningu fyrir árið 2018 nú nýlega.