Slökkvilið Fjarðabyggðar sýnir gott fordæmi á erfiðum tímum

Slökkvilið Fjarðabyggðar óskaði eftir því við Samstarfsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sunnudaginn 22. mars sl., að slökkviliðinu yrði heimilt að gera tímabundnar breytingar á vaktakerfi til að draga úr smithættu milli vakta og vaktmanna vegna COVID-19.

Slökkvilið Fjarðabyggðar óskaði eftir því við Samstarfsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sunnudaginn 22. mars sl., að slökkviliðinu yrði heimilt að gera tímabundnar breytingar á vaktakerfi til að draga úr smithættu milli vakta og vaktmanna vegna COVID-19. Þessi tímabundna vaktabreyting hefur engin áhrif á kjör eða laun og myndar ekki frítökurétt né virkjar önnur hvíldarákvæði. Samstarfsnefndin samþykkti erindi slökkviliðsins og hrósar slökkviliðsmönnum Fjarðabyggðar sérstaklega fyrir að leysa málin heima í héraði á jafn faglegan og óeigingjarnan hátt og hér er gert.

Samstarfsnefndin byggir niðurstöðu sínu m.a. á eftirfarandi rökum:

  • Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19. Í neyðarstigi virkjast viðbragðsáætlanir þar sem víða kemur fram að færa þurfi starfsfólk til í störfum, bæði hvað varðar breytt störf, starfsaðstæður og starfsaðstæður.
  • Kjarasamningarnir marka ramma utan um vinnu sem unnin er dags daglega þegar um eðlilegt ástand er að ræða. Hvergi í kjarasamningum eða í ráðningasamningum er tekið á því hvernig bregðast eigi við þegar vá ber að höndum og almannavarnir virkja viðbragðsáætlanir eins og nú hefur gerst. Í raun er komin upp sú staða sem í lögfræði kallast force majeure.
  • Það er mat Sambands íslenskra sveitarfélaga að lög um almannavarnir eigi að ganga framar þeim lögum er kjarasamningar byggja á. þ.e.a.s. lög um almannavarnir eru lög er virkjast í force majeure aðstæðum og því gangi þau framar öðrum lögum.
  • Í aðstæðum er myndast þegar neyðarstigi hefur verið lýst yfir þarf að vera hægt að taka ákvarðanir hratt og örugglega. Er því eðlilegt að opinberir aðilar geti haft ákveðið svigrúm á grundvelli force majeure til breytinga sem ella væri greitt sérstaklega fyrir eða samið sérstaklega um í eðlilegu ástandi.
  • Opinberir aðilar verða að geta nýtt mannauð sinn í þau verkefni sem eru mikilvægust hverju sinni án þess að þurfa að yfirfara kjarasamninga og ráðningasamninga og hugsanlega síðar komi til deilna um launakjör, yfirvinnu og aðrar greiðslur.