Skýrsla um stofnun hálendisþjóðgarðs

Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands hefur skilað Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, skýrslu um þjóðgarð á miðhálendinu. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis.

Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands hefur skilað Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, skýrslu um þjóðgarð á miðhálendinu. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis.

Fulltrúar sambandsins voru Dagbjört Jónsdóttir úr Þingeyjarsveit og Valtýr Valtýsson úr Bláskógabyggð.

Í skýrslunni er lagt til að Hálendisþjóðgarður verði á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar, það er þjóðlendum og friðlýstum svæðum sem eru innan miðhálendisins. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp um stofnun Hálendisþjóðgarð á Alþingi næsta vor sem byggi á áherslum nefndarinnar.

Náið samráð við sveitarfélög

Nefndin leggur til að víðtækt samráð verði haft um stjórnun þjóðgarðsins þar sem sveitarfélög og helstu hagaðilar hafi beina aðkomu. Stjórnunin verði dreifð og aðkoma sveitarfélaga og hagaðila aukin frá því sem þekkst hefur í stjórnsýslu friðlýstra svæða til þessa. Þá leggur nefndin meðal annars til að Hálendisþjóðgarði verði skipt í nokkur rekstrarsvæði þar sem starfrækt verði svæðisbundin ráð sem fari með svæðisbundna stefnumörkun, umsjón og rekstur. Einnig leggur nefndin áherslu á að Hálendisþjóðgarður efli og styðji við sjálfbæra nýtingu hálendisins um leið og hann grundvallist á sáttmála um að standa vörð um þær merku minjar í náttúrufari og menningu sem einkenna hálendi Íslands.

Við störf nefndarinnar var lögð áhersla á náið samráð við sveitarfélög og helstu hagsmunaaðila. Í ágúst 2018 hélt nefndin tíu fundi hringinn í kringum landið þar sem meðal annars var fundað með öllum þeim 24 sveitarfélögum sem hafa skipulagsábyrgð á miðhálendinu, eiga þar upprekstrarréttindi eða aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði sem verður hluti af hinum nýja þjóðgarði. Jafnframt hafa fulltrúar sambandsins í nefndinni haft skipulagsmálanefnd sambandsins og starfsmenn þess til ráðgjafar í málinu.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um að leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands og verða drög að frumvarpi um Hálendisþjóðgarð kynnt í samráðsgátt þegar þau liggja fyrir. Sem fyrr segir er áformað að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi frumvarpið fram á Alþingi vorið 2020.