Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur gefið út skýrslu um stöðu slökkviliða á Íslandi. Skýrslan er unnin í kjölfarið af úttektum stofnunarinnar á starfsemi slökkviliða sem framkvæmdar voru árið 2021.
Tilgangur úttektanna var að ná fram heildstæðri sýn yfir starfsemi slökkviliða í landinu svo unnt sé að vinna markvisst að því að efla eldvarnareftirlit og slökkvistarf þar sem þörf er á og tryggja þannig faglega, virka og samhæfða þjónustu slökkviliða um land allt. Öll slökkviliðin voru heimsótt á innan við ári og var starfsemi þeirra skoðuð í samræmi við kröfur gildandi laga og reglugerða sem þau starfa eftir. Á þeim tíma voru 34 slökkvilið á Íslandi er náðu yfir 68 sveitarfélög. Áhersla var lögð á taka út rekstur slökkviliða og húsnæði þeirra, þjálfunar- og menntunarmál slökkviliðsmanna, ástand hlífðarfatnaðar, búnaðar, ökutækja og stöðu eldvarnareftirlits.
Fréttin með ítarlegri úttekt á vef HMS.
Ljóst er að ekki eru öll sveitarfélög á Íslandi með slökkvilið sem er þannig skipulagt, búið, mannað, menntað og þjálfað, að það geti leyst af hendi með fullnægjandi hætti öll lögbundin verkefni. Þegar slökkviliðin landsins eru borin saman eftir landshlutum má sjá að þrátt fyrir að starfsemi slökkviliða sé í góðum farvegi hjá ákveðnum liðum er víðast hvar þörf á frekari úrbótum og stuðningi við slökkviliðin, sér í lagi minni slökkvilið landsins.
Helstu tillögur að úrbótum eru að ráðast þarf í nánari greiningu á starfsemi slökkviliða á grundvelli fyrirliggjandi úttekta og vinna að því að samræma og samþætta brunavarnir og önnur lögbundin verkefni. Sveitarfélög þurfa að huga að frekari samstarfi og sameiningum minni slökkviliða sem hafa ekki burði til að uppfylla lögbundnar kröfur og/eða takast á við stórar áhættur á þeirra svæðum. Einnig verður áfram unnið að eftirfylgni með gerð brunavarnaáætlana sveitarfélaga og að starfað sé í samræmi við þær. Vinna þarf að því að stjórnendavaktir séu tryggðar á öllum starfssvæðum slökkviliða og að starfshlutfall slökkviliðsstjóra sé í samræmi við ábyrgð hans og valdheimildir. Þá er lagt til að stuðlað verði að uppbyggingu á bað- og afeitrunaraðstöðu aðstöðu slökkviliða og bæta almenna aðstöðu til þrifa á hlífðarfatnaði og öðrum búnaði slökkviliða á stöð.
Allar tillögurnar og nánari niðurstöður úttektanna má finna í skýrslu um stöðu slökkviliða á Íslandi.