Skýrsla um samræmda skiptingu stjórnsýslunnar

Starfshópur um samræmda skiptingu stjórnsýslunnar hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni. Verkefni hópsins sem var skipaður síðastliðinn vetur var að fara yfir möguleika þess að samræma skiptingu stjórnsýslunnar í umdæmi í þeim tilgangi að bæta yfirsýn og samanburð á ýmsum þáttum íslensks samfélags.

Í starfshópnum voru fulltrúar allra ráðuneyta, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hafði hópurinn samráð við fulltrúa innan stjórnsýslunnar með það að markmiði að koma með tillögu að ásættanlegri og einfaldri, samhæfðri skiptingu með hag íbúa og þjónustu við þá að leiðarljósi.

Starfshópurinn leggur til þrjá mismunandi valkosti til þess að ná fram sýn stjórnvalda:

  1. Allir opinberir aðilar birti upplýsingar og vinni gögn samkvæmt landshlutaskiptingu sveitarfélaga og sóknaráætlana.
  2. Engin breyting á opinberri skiptingu landsins lögð til en notkun staðfanga og reitakerfa hraðað verulega.
  3. Ein samhæfð skipting landsins samkvæmt landshlutaskiptingu sveitarfélaga og sóknaráætlana.

Að mati starfshópsins snýst verkefnið í grunninn ekki um landfræðileg mörk heldur frekar um samræmt aðgengi og samræmda birtingu gagna. Helsta áskorun stjórnvalda í tengslum við skiptingu stjórnsýslunnar sé sú að erfitt hafi verið að bera saman gögn mismunandi stofnana sem torveldi samanburð og yfirsýn.

Valkostir 1 og 2 byggjast á þeim grunni þar sem hugsunin er að breyta högun gagna til þess að ná fram markmiðum stjórnvalda. Stjórnvöld munu vinna að valkostum 1 og 2.

Sú skipting sem starfshópurinn leggur til grundvallar í sínum valkostum er skipting stjórnsýslunnar eftir landshlutaskiptingu sveitarfélaga og sóknaráætlana. Ástæðan fyrir því vali er sú að skiptingin er almennt viðurkennd og víða til grundvallar skipulagi opinberrar þjónustu nú þegar ásamt því að vera bein tengd við búsetu fólks. Valkostir 1 og 3 nýta landfræðilega tengingu. Valkostur 2 hins vegar byggist ekki á fyrir fram ákveðinni landfræðilegri skiptingu heldur tengist eingöngu gagnaskipulagi og má á grunni þess skipta landinu hvernig sem hentar hverju sinni en á sama tíma ná fram markmiðum stjórnvalda.