Skýrsla um ráðstöfun fjármuna í grunnskólum

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út skýrsluna Ráðstöfun fjármuna í grunnskóla fyrir alla en hún inniheldur helstu niðurstöður samstarfsverkefnis ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og 13 sveitarfélaga um fjármögnun grunnskóla hér á landi.

Í frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að í niðurstöðum úttektar Evrópumiðstöðvar (2017) á framkvæmd menntastefnu um skóla án aðgreiningar (menntun fyrir alla) eru settar fram þrjár lyftistangir eða tillögur til úrbóta sem geta stutt við frekari þróun menntakerfisins fyrir alla. Ein af þessum lyftistöngum snýr að úthlutun og nýtingu fjármagns.

Markmið verkefnisins var að skoða hvernig stuðla mætti markvissar að snemmtækum stuðningi og forvörnum og auka hæfni menntakerfisins til að starfa á grundvelli jafnaðar, skilvirkni og hagkvæmni. Þá var einnig lagt upp með að hefja innleiðingu leiðbeinandi viðmiða Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir um ráðstöfun fjármuna í skólakerfum menntunar fyrir alla.

Í þátttökusveitarfélögunum 13 eru um 83% allra grunnskólanemenda á landinu. Í skýrslunni eru sett fram lykilatriði og tillögur sem ætlað er að styðja við umræðu og ákvarðanatöku þeirra sem bera ábyrgð á stefnumótun og ráðstöfun fjármuna til grunnskóla á Íslandi.

Helstu niðurstöður verkefnisins eru eftirfarandi:

 • Reglum um fjárframlög verði breytt þannig að horfið verði frá viðbragðsmiðuðum stuðningi og þess í stað lögð áhersla á íhlutun og forvarnir.
 • Kennsluráðgjöf og snemmtækur stuðningur verði efldur og dregið verulega úr formlegum kröfum um greiningar sem forsendu stuðnings.
 • Vinna verði sett af stað við gerð leiðbeinandi deililíkans fyrir rekstraraðila grunnskóla. Líkanið byggi á breytum sem taka tillit til námslegrar og félagslegrar stöðu nemenda, aldurs, kyns og uppruna.
 • Gert verði ráð fyrir viðbótarúthlutun til sveigjanlegs skólastarfs er byggir á upplýsingum um félagslega stöðu nemenda í skólahverfum.
 • Í samstarfi skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu verði markvisst unnið með aðferðir til að koma snemma auga á einstaklingsbundnar þarfir og veita nemendum sveigjanlegan stuðning.
 • Allir grunnskólar fái stuðning við að útfæra skólastefnu um menntun fyrir alla.
 • Skólar verði studdir til markvissrar skólaþróunar sem miðar að samábyrgð allra er koma að menntun fyrir alla nemendur.
 • Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við Skólastjórafélag Íslands bjóði upp á námskeið fyrir verðandi og starfandi stjórnendur sem miði að því að auka þekkingu þeirra á ráðstöfun fjármuna í grunnskóla fyrir alla.
 • Sveitarfélög vinni að því í sameiningu að koma á leiðbeinandi gæðastjórnunarkerfi sem tekur til markmiðssetningar í skólastarfi, ráðstöfun fjármuna, nýtingu fjármagns og eftirfylgd.
 • Verklag við eftirlit og reglulega endurskoðun þess stuðnings sem nemendum er veittur verði eflt.
 • Sjálfsmatstæki Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar fyrir stefnumótun fjárveitinga verði gert aðgengilegt fyrir sveitarfélög.

Unnið verður að frekari kynningu skýrslunnar og eftirfylgni í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Næstu skref verða ákvörðuð í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila, með hliðsjón af innleiðingu menntastefnu til ársins 2030 og nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.