Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC) gaf út sjöttu ástandsskýrslu um loftslagsbreytingar í dag. Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Skýrslan er yfir 1300 síður og inniheldur grundvallar upplýsingar um stöðu loftslagsmála í dag. Hún inniheldur nýjustu framtíðarspár um hlýnun jarðar og vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, bæði á heimsvísu og svæðisbundið. Í henni er jafnframt að finna upplýsingar um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til þess að sporna við loftslagsbreytingum.
Í skýrslunni sem gefin var út í dag er enn greinilegra en fyrr að athafnir mannkyns eru meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi. Einnig liggja fyrir ýtarlegri gögn sem gefa til kynna að loftslagsbreytingar geri það að verkum að ýmsir aftakaatburðir verða algengari og afdrifaríkari, þ.m.t. ákafari rigning og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum.
Dregnar eru fram nokkrar sviðsmyndir í skýrslunni miðað við mismunandi losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er losað nær meðalhlýnun 2 °C fyrir miðja þessa öld og gæti orðið á bilinu 3,3 til 5,7 °C í lok aldarinnar. Til samanburðar þá skuldbinda aðildarþjóðir Parísarsamkomulagsins sig til að halda hlýnun vel undir 2°C og kanna leiðir til að takmarka hlýnun við 1,5 °C. Það hlýnar mun minna í þeim sviðsmyndum þar sem gripið er til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og talið ólíklegt að hlýnun fari yfir 2 °C. Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er dregið úr losun stöðvast hækkun hnattræns meðalhita eftir að hlýnun fer nokkuð yfir 1.5 °C. Meðalhitinn lækkar svo aftur niður í 1,5 °C fyrir lok aldarinnar.
Í skýrslunni er að finna samantekt fyrir stefnumótendur sem geta meðal annars nýst sveitarfélögum og öðrum svæðisbundnum stjórnvöldum. Samantektin veitir meðal annars innsýn inn í núverandi ástand, spár um þróun loftslagsáhrifa og hlutverk athafna mannkyns í breytingum á loftslagi. Einnig er þar að finna tæknilega samantekt og gagnvirka kortasjá.