Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Starfshópur skipaður fulltrúum beggja ráðuneyta hafa skilað skýrslu þar um.
Í dag er eignarhald á fasteignum hjúkrunarheimila með ólíkum hætti sem ræðst fyrst og fremst af því hvenær viðkomandi heimili var byggt og hvaða fyrirkomulag var í gildi á þeim tíma. Skipta má eignarhaldi hjúkrunarheimila í þrjá grunnflokka þar sem einn flokk skipa þau heimili sem byggja á eldra fyrirkomulagi og eignarhald fasteigna liggur hjá rekstraraðila, þá leiguleiðin sem komið var á fót árið 2008 þar sem eignarhald liggur hjá sveitarfélögum en ríkið greiðir ákveðna húsaleigu og svo núverandi fyrirkomulag sem grundvallast á sameiginlegu eiganrhaldi ríkis og sveitarfélaga, þ.e. í 85/15 hlutföllum.
Helstu breytingar sem lagðar eru til fela í sér að horfið er frá núverandi fyrirkomulagi þannig að samstarfi ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu hjúkrunarheimila verði hætt og ríkissjóður beri framvegis einn ábyrgð á fjármögnun vegna reksturs rýma undir hjúkrunarþjónustu.
Auk þessa verði tekið upp staðlað fyrirkomulag þar sem greidd er leiga í formi nýs húsnæðisgjalds fyrir afnot af rýmum undir eiginlega hjúkrunarstarfsemi. Fjármögnun hjúkrunarheimila byggi á skýrri aðgreiningu reksturs húsnæðis annars vegar og hjúkrunarþjónustu hins vegar. Þá verði fasteignafélögum og öðrum sérhæfðum aðilum gefið tækifæri til að byggja og reka fasteignir hjúkrunarheimila á grundvelli útboða.
Lesa má nánar um málið á vef Stjórnarráðs Íslands.
Skýrsla starfshóps um breytt fyrirkomulag fasteigna vegna hjúkrunarheimila