Skýrsla skólaþings komin út

Skólaþing sveitarfélaga 2017 var vel sótt, en þátttakendur voru um 230 talsins frá flestum starfssviðum menntamála. Niðurstöður úr umræðuhópum munu nýtast þeirri vinnu sem framundan er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og miðar að bættri framkvæmd menntastefnu stjórnvalda og nýliðun í kennarastétt.

Skyrsla-skolathings-2017Sjötta skólaþing sveitarfélaga fór fram snemma í nóvember sl. og var afar vel sótt, en alls tóku þátt um 230 manns frá flestum starfssviðum menntamála.

Niðurstöður úr umræðuhópum þingsins eru nú aðgengilegar í nýútkominni skýrslu um þingið og munu koma sér vel í þeirri vinnu sem framundan er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að bættri framkvæmd menntastefnu stjórnvalda og nýliðun í kennarastétt.

Meginumfjöllunarefni þingsins voru tvö og skiptist þingið þannig í tvær lotur, þar sem fyrri lotan sneri að úttekt Evrópumiðstöðvar á framkvæmd opinberrar menntastefnu hér á landi, en sú síðari að nýliðun í kennarastétt. Hvorri lotu lauk svo með umræðuhópum og fengu þátttakendur klukkustund í hvort skipti til að ræða málin í sínum hópi hver út frá nokkrum lykilspurningum.

Tökum nýjan kúrs

Fyrri lotan fór fram yfir hádegi undir yfirskriftinni Tökum nýjan kúrs og fengu umræðuhóparnir m.a. til umfjöllunar tillögur sem stýrihópur um aðgerðir í kjölfar úttektar Evrópumiðstöðvar hefur lagt fram. Á meðal þess sem hópurinn hefur lagt til er, að sameiginleg þjónustusvæði verði skilgreind fyrir menntamál, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu, svo að styðja megi betur en áður við menntun án aðgreiningar hér á landi. Einnig hefur hópurinn lagt til að fyrirkomulagi fjárveitinga á grundvelli sjúkdómsgreininga verði endurskoðað.

Þessar tillögur stýrihópsins féllu á heildina litið í góðan jarðveg, m.a. fyrir þau tækifæri sem umræðuhóparnir greindu til jákvæðrar þróunar og betri og samhæfðari þjónustu við íbúa. Ýmsa pytti beri þó að varast og þýðingarmikið sé að sík framtíðarsýn verði byggð á heildstæðri stefnumótun hjá mennta-, heilbrigðis- og félagsmálayfirvöldum. Einnig var talið mikilvægt, að tillit verði tekið til staðbundinna aðstæðna og samlegðaráhrifa og að farið í allar breytingar með sveigjanleika og nýsköpun að leiðarljósi.

Hvað fyrirkomulag fjárveitinga snertir, þá var m.a. bent á að fella þurfi reglur og fyrirkomulag fjárveitinga betur að hugmyndafræði menntastefnunnar. Útdeiling fjármagns á grundvelli sjúkdómsgreininga vegna frávika þjóni hvorki viðkomandi barni eða almennu skólastarfi. Treysta þurfi fagfólki á vettvangi skóla og skólaþjónustu betur en nú er gert til þess að meta hvar skórinn kreppir og hvernig bregðast skuli við og voru ýmsar leiðir tilgreindar í þeim efnum.

Hvar eru kennararnir?

Skoðanir voru síðan öllu skiptari eftir hádegi, þegar nýliðun í kennarastétt var tekinn til umfjöllunar undir yfirskriftinni Hvar eru kennararnir? Grunntónninn virtist þó sá að umfjöllun um jákvæðar hliðar skólastarfs, menntunar og kennarastarfsins hafi nánast horfið inn í skuggann af kjarabaráttu stéttarinnar. Allir þyrftu að leggjast á eitt um að snúa þessari orðræðu við og væri enginn betur til þess fallinn að hefja þá vegferð en kennarasamtökin.

Hér hefur verið stiklað á aðeins litlum hluta af þeim áhugaverðu niðurstöðum sem birtar eru í Skýrslu skólaþings sveitarfélaga 2017 og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér betur efni skýrslunnar. Samband íslenskra sveitarfélaga metur mikils að geta haft til hliðsjónar álit og tillögur þess fjölbreytta hóps fagfólks, sérfræðinga og stjórnmálamanna sem þátt tók í skólaþinginu. Næsta skólaþing fer fram 2019.

Skyrsla-skolathings-2017-2