Skýrsla OECD um svæðabundin áhrif COVID-19 faraldursins

Samkvæmt OECD munu sveitarstjórnir leika lykilhlutverk í því endurreisnarstarfi sem nú mun fara af stað og hafa sum ríki þegar hafist handa.

OECD meðaltal: 2% samdráttur í hverjum mánuði

Á fundi í sérstökum COVID-19 vinnuhópi á vegum Evrópusamtaka sveitarfélaga var nýverið fjallað um skýrslu OECD um svæðabundin áhrif COVID-19 faraldursins. Í skýrslu OECD kemur fram í ríkjum sem búa við strangar hömlur vegna COVID-19 faraldursins hefur verg landsframleiðsla dragist saman um 2% fyrir hvern mánuð sem hömlunum er framfylgt. Um er að ræða OECD meðaltal og því má reikna með að í sumum tilvikum séu þessar tölur enn hærri, t.d. ef að ríki byggja afkomu sína að stórum hluta á ferðamannaiðnaði eða öðrum geirum þar sem áhrifanna gætir mikið.

Svæðisbundin áhrif

Þá kom fram að áhrif COVID-19 faraldursins séu svæðisbundin og því reyni á samtakamátt samfélagsins og að byrðinni sé jafnað út í samfélaginu. Sem dæmi má nefna að í Kína voru 83% greindra tilfella í Hubei héraði. Á Ítalíu voru 41% greindra tilfella í Lombardy héraði, í Frakklandi einskorðuðust 66% tilfella við tvö héruð og hingað til hafa 40% smitaðra í Bandaríkjunum verið íbúar New York.

Ábyrgð sveitarstjórna mikil

Þetta hefur haft í för með sér að sveitarstjórnir hafa í mörgum tilvikum borið hitann og þungann af áhrifum COVID-19 faraldursins. Hér er bæði um að ræða viðbrögðin til þess að hefta útbreiðslu veirunnar og aðgerðir til þess að tryggja að þeirri þjónustu sem sveitarfélög bera ábyrgð á sé sinnt. Hér er einnig um að ræða heilsugæslu, en samkvæmt meðaltali OECD þá bera sveitastjórnir ábyrgð á fjórðungi þess fjármagns sem fer til heilsugæslu. Þetta er þó mjög mismunandi eftir ríkjum, allt frá 90% í Sviss niður í 1% á Spáni.

Gríðarleg efnahagsleg áhrif, en mismunandi eftir svæðum

Ljóst er að efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins eru gríðarleg, en hitt líka að þau eiga eftir að vera mjög mismunandi eftir löndum og svæðum. Samkvæmt OECD er líklegt að áhrif á störf verði meiri í borgum en á öðrum svæðum. Efnahagsleg áhrif munu þó væntanlega verða mest í geirum þar sem áhrifa þeirra aðgerða sem ríki hafa neyðst til að grípa eru hvað mest. Eins og áður sagði þá eru ríki, svæði og borgir sem byggja stóran hluta afkomu sinnar á ferðamönnum því líkleg til að finna harkalega fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins.

Nauðsynleg aðkoma ríkisins

Þessu samfara má reikna með því að afkoma sveitarfélaga versni til muna á þeim svæðum þar sem efnahagsleg áhrif faraldursins eru hvað mest. Á sama tíma má reikna með að útgjöld þeirra muni líklega aukast. Því er ljóst að mörg svæði koma til með að þurfa á verulegri aðstoð að halda frá ríkinu. Í þessu tilliti má benda á að í Finnlandi hefur ríkisstjórnin gefið út þá yfirlýsingu að tryggt verði að fjárlagagöt sveitarstjórna verði fyllt og þessu var fylgt eftir með því að auka hlut sveitarfélaga í þeim fjármunum sem aflast með fyrirtækjaskatti (s.k. „bolagsskatt“ sem lögaðilar greiða. Í Frakklandi er sveitarstjórnum nú tímabundið heimilt að auka útgjöld sín umfram það lágmark sem lög kveða á um. Í Noregi fá sveitarfélög styrki til þess að fjármagna viðbótarkostnað sem hefur fallið á sveitarfélögin í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Hlutverk sveitarstjórna í kjölfar faraldursins

Samkvæmt OECD munu sveitarstjórnir leika lykilhlutverk í því endurreisnarstarfi sem nú mun fara af stað og hafa sum ríki þegar hafist handa. Í Frakklandi er hafin vinna sem er sérstaklega beint að héruðum og sveitum landsins og snýr meðal annars að fjárhagslegum stuðningi sem er ætlað að styðja við „artisan“ framleiðendur og lítil og meðalstór fyrirtæki á þessum svæðum.