Skora á ríkið að hefja viðræður vegna hjúkrunarheimilanna

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu skora á Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið að hefja nú þegar markvissar og raunhæfar viðræður við samtökin og Samband íslenskra sveitarfélaga um þjónustu hjúkrunarheimila, sem og þjónustu í dagdvalarrýmum. Ef fram heldur sem horfir verður þjónustuskerðing óhjákvæmileg vegna þeirrar rýrnunar sem átt hefur sér stað á verðgildi fjárveitinga samfara kostnaðarhækkunum undanfarinna missera. 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) skora á Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og heilbrigðisráðuneytið (HBR) að hefja nú þegar markvissar og raunhæfar viðræður við SFV og Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) um þjónustu hjúkrunarheimila, sem og þjónustu í dagdvalarrýmum. Ef fram heldur sem horfir verður óhjákvæmilegt að skerða þjónustu til að mæta þeirri rýrnunar sem átt hefur sér stað á verðgildi fjárveitinga samfara kostnaðarhækkunum undanfarinna missera. 

Áskorunin var samþykkt á félagsfundi samtakanna þann 1. febrúar sl. Er sú krafa jafnframt gerð að í viðræðunum afmarki stjórnvöld þá þjónustuþætti og kröfur sem þau telja unnt að skerða með hliðsjón af fjárveitingum sem veita eigi til rekstursins. Fundurinn skoraði jafnframt á SÍ að greiða áfram þá eyrnamerktu fjármuni sem hjúkrunarheimilum voru veittir í fjárlögum til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd sem orðið hefur á heimilunum. Þeim tæpum 300 mkr. halda SÍ og/eða ráðuneytið í sinni vörslu.

Ýmist neita eða svara engu
Í júní 2018 lögðu SFV fram kröfugerð í 14 liðum til framlengingar þágildandi rammasamnings ríkisins um þjónustu hjúkrunarheimila. Um er að ræða langstærsta þjónustusamning sem SÍ hafa gert, en hátt í 30 milljarðar króna voru greiddir hjúkrunarheimilum á grundvelli hans ár hvert. SFV og SÍS hafa enn fremur gert þá kröfu að samhliða niðurskurði fjármagns (bæði beinum og óbeinum niðurskurði) þurfi að draga úr kröfum sem gerðar eru til þjónustunnar. SÍ hafa ekki fallist á einn einasta af áðurnefndum fjórtán liðum í kröfugerð SFV. Þá hafa stjórnvöld ekki fengist til að útlista hvaða kröfum hægt sé að draga úr eða falla frá í viðræðunum. Síðasti formlegi fundur samningsaðila, þar sem fram fóru efnislegar viðræður, var haldinn í október 2018 og enn hefur ekki verið boðað til annars samningafundar. Til að viðræðurnar verði sem markvissastar hafa SFV jafnframt óskað eftir að fá hlutlausan, utanaðkomandi aðila til að stýra viðræðum og miðla málum með álíka hætti og ríkissáttasemjari gerir gagnvart aðilum vinnumarkaðarins.

Svipuð staða er uppi í viðræðum SFV, SÍ og SÍS um þjónustu í dagdvalarrýmum. Viðræðurnar hófust í janúar 2018, en ekki hefur verið haldinn formlegur samningafundur frá því í mars 2018. Að lágmarki 30% vantar upp á fjárveitingu dagdvala með hliðsjón af þeim kröfum sem velferðarráðuneytið lagði fram, en ekki hafa fengist svör um hvort draga skuli úr kröfum, fækka rýmum eða bæta við fjármagni til að samningur geti náðst.

Fyrirvaralaus reglugerð og gjaldskrá sett án tilkynningar eða samráðs
Á félagsfundi SFV var enn fremur lýst fyrir miklum vonbrigðum með þau vinnubrögð SÍ og HBR sem viðhöfð voru við setningu reglugerðar og gjaldskrár fyrir þjónustu hjúkrunarheimila í desember 2018. Með þeim voru gerðar grundvallarbreytingar á greiðslum til hjúkrunarheimila landsins hvað varðar greiðslur smæðarálags sem og greiðslur vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, án nokkurrar tilkynningar, samráðs eða fyrirvara gagnvart heimilunum þrátt fyrir að fulltrúar heimilanna hefðu verið í samningaviðræðum við stjórnvöld í marga mánuði. Slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka traust á milli aðila eða tiltrú á samningaferlinu.

Eyrnamerktum fjármunum haldið eftir
Á fundinum var einnig skorað á stjórnvöld að greiða strax áfram þá fjármuni sem hjúkrunarheimilum voru veittir í fjárlögum til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd sem orðið hefur á heimilunum. Þrátt fyrir viðbótarfjárveitinguna miða SÍ við sömu þyngdarstuðla og notaðir voru fyrir árið 2018 í þeirri nýju gjaldskrá sem tók gildi um áramót. Í þessu felst að um 276,4 milljónir króna sem fjárlaganefnd og Alþingi eyrnamerktu til reksturs hjúkrunarheimila verða ekki greiddir til heimilanna samkvæmt gjaldskránni, heldur haldið eftir í vörslu stofnunarinnar eða heilbrigðisráðuneytisins. Var skorað á heilbrigðisráðherra og SÍ að framkvæma tafarlausa leiðréttingu og enn fremur að fjárlaganefnd og þingmenn beiti sér fyrir því að ákvörðun alþingis verði virt.

Þurfa að skerða þjónustu
Af hálfu Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu er ljóst að við óbreyttar aðstæður er óhjákvæmilegt að taka mjög fljótlega ákvarðanir um skerðingu þjónustuþátta til að mæta rýrnun verðgildis fjárveitinga til rekstrar hjúkrunarheimilanna samfara kostnaðarhækkunum undanfarin misseri. Þær aðgerðir verða án efa útfærðar með mismunandi hætti á heimilunum enda aðstæður mismunandi. Eftir fremsta megni verður þó leitast við að haga þeim þannig að íbúar verði fyrir eins litlu óhagræði og unnt er.