Umbætur í norska skólakerfinu rýndar

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var nýlega stödd í Noregi að kynna sér umbætur í menntamálum þarlendra. Með ráðherranum í för voru fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands og fulltrúum menntavísindasviðs Háskóla Íslands og kennaradeildar Háskólans á Akureyri.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var nýlega stödd í Noregi að kynna sér umbætur þar í landi í menntamálum. Með ráðherranum í för voru fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands og fulltrúum menntavísindasviðs Háskóla Íslands og kennaradeildar Háskólans á Akureyri.

Tilgangur fararinnar var aðallega tvíþættur eða að afla upplýsinga um annars vegar viðbrögð norskra stjórnvalda við nýliðunarvanda á meðal kennara og hins vegar um aðgerðir norskra yfirvalda vegna nemenda sem hafa norsku sem annað tungumál.

Að auki fengust mikilvægar upplýsingar um þær breytingar á norska menntakerfinu sem unnið hefur verið að frá því eftir aldamót og skilað hafa góðum árangri, en ráðist var í þær umbætur í kjölfarið á slöku gengi í alþjóðlegum könnunum eins og PISA og PIRLS.

Á meðal aðgerða stjórnvalda má nefna, að menntun kennara og skólastjórnenda hefur verið efld, námskrár endurskoðaðar og sérstök áhersla lögð á grunnfærni tiltekinna námsgreina. Norska ríkisstjórnin hratt jafnframt af stað viðamiklum umbótaverkefnum í þessu sambandi sem báru yfirskriftina Kunnskapsløftet og Lærerløftet.

Á meðal ráðamanna sem rætt var við, þá sat mennta- og menningarmálaráðherra fund með Jan Tore Sanner, ráðherra mennta- og innflytjendamála. Einnig ræddi hún við Iselin Nybø, ráðherra rannsókna og háskólamála, aðallega um aðgerðir sem taka mið af starfsumhverfi og nýliðun í kennarastétt. Umsóknum um kennaranám hefur fjölgað um 18% á milli ára í Noregi og hafa áherslur Norðmanna beinst að því að lengja kennaranám, efla starfsþróun kennara og breyta námslánum í styrki, svo að dæmi séu nefnd.

Af öðrum viðkomustöðum má síðan nefna háskólana Oslo Universitet og Oslo Metropolitan University, þar sem hópurinn kynnti sér kennaramenntun og BI viðskiptaháskólann, eina stærstu endurmenntunarstofnun fyrir kennara í Noregi, en skólinn sinnir að auki menntun skólastjórnenda.

Þá sat hópurinn fundi með KS, sambandi norskra sveitarfélaga og svæðisstjórna og Kennarasambandi Noregs. Alls vantar um 6.000 grunnskólakennara til starfa í Noregi, mestmegnis á landsbyggðinni og hefur á undanförnum árum náið samstarf tekist á milli KS, ríkisvaldsins og kennarasamtaka, m.a. í tengslum við áðurnefnd umbótaverkefni.

Ferd-med-mennta-og-menningarmalaradherra-til-osloar-082018Hér má sjá hópinn saman kominn sem sótti Noreg heim. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er nánast fyrir miðju hópsins. Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi sambandsins, er önnur frá hægri í fremri röð.