06. nóv. 2017

Tölum skólakerfið upp

HH-skolathing-sveitarfelagaÁ meðan skólastarfið er vel fjármagnað virðist okkur skorta upplýsingar um nýtingu fjármagnsins og árangur. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar í setningarræðu sinni í morgun á skólaþingi sveitarfélaga. Einnig gerði hann  skekkta umræðu um skólastarfið að umtalsefni.

Þessar niðurstöður Evrópumiðstöðvar benda að mati Halldórs enn fremur til þess, að aukið fjármagn feli í sér takmarkaðar lausnir. Hærri laun dragi sem dæmi ekki úr vinnuálagi kennara og að leggja verði aukna áherslu á fagleg sjónarmið og fjölbreytileika kennarastarfsins en nú er gert. Það kalli svo aftur á aukinn sveigjanleika í kjarasamningum.

Þá spurði Halldór hvort ekki væri nóg komið af neikvæðri umræðu um skólakerfið og neikvæðum áhrifum þess. Hafa verði hugfast að slík umræða smiti óhjákvæmilega út frá sér.

„Við getum verið stolt af skólastarfinu okkar og eigum að vera stolt af því frábæra starfi sem þar fer fram. Við megum ekki heldur gleyma því að skólarnir eru vinnustaðir barnanna okkar. Förum nú að tala skólastarfið upp í stað þess að tala það í sífellu niður,“ sagði Halldór.

Skólaþing sveitarfélaga fer fram í dag á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni Á ég að gera það? Á dagskrá þingsins eru tvö knýjandi mál eða annars vegar skýrsla Evrópumiðstöðvar um framkvæmd menntunar án aðgreiningar hér á landi og hins vegar vaxandi nýliðunarvandi í kennarastétt.

Hvað yfirskrift þingsins snertir, þá var Halldór ekki í neinum vafa. „Já, ég á að gera það. Einnig þú og við öll,“ sagði hann og skírskotaði með þessum beinskeytta hætti til þess, að verkefni skólakerfisins eru sameiginlegt viðfangsefni ekki sumra heldur allra sem að því koma.

Áætluð þinglok eru kl. 16 síðdegis. Fundarstjórar eru Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar Garðarbæjar og Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.


Ljósm. Halldór Halldórsson setur skólaþingi sveitarfélaga 2017