07. nóv. 2017

Tökum nýjan kúrs

Mikilvægt er að heildstæð sýn á gæðamenntun fyrir alla leysi af hólmi þá „úrræðavæðingu” sem einkennt hefur þróun skólastarfs. Hættum að reyna að breyta nemendum og gerum skólaþjónustu um land allt að raunverulegri stoð fyrir gæðamenntun og faglega starfsþróun. Fjallað var um menntun án aðgreiningar á skólaþingi sveitarfélaga.

Niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir voru kynntar nú í vor. Fyrri hluti skólaþings sveitarfélaga 2017 fjallaði um úttektina undir yfirskriftinni Tökum nýjan kúrs.

Á meðal þeirra sem til máls tóku voru Edda Óskarsdóttir, verkefnastjóri hjá Evrópumiðstöðinni, sem fjallaði um skóla án aðgreiningar út frá doktorsverkefni sínu og reynslu sem deildarstjóri stoðþjónustu, en  Edda rannsakaði á sínum tíma hvernig gera mætti stoðþjónustuna úr garði án aðgreiningar. Tók Edda sérstaklega fram að hún hefði ekki komið að úttektinni sem miðstöðin gekkst fyrir hér á landi.

Einnig vakti athygli sameiginlegt erindi sem Hermína Gunnþórsdóttir, dósent og Birna María B. Svanbjörnsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og fjallaði um hvernig skólaþjónusta sveitarfélaga geti stutt við starfsþróun skóla á sjálfbæran hátt.

Hermina og Birna María hafa á undanförnum árum unnið með hópi fólks í Háskólanum á Akureyri sem hefur látið var sig varða menntun án aðgreiningar frá mismunandi sjónarhornum. Í maí á síðasta ári gekkst hópurinn m.a. fyrir málþingi sem bar yfirskriftina Að greina í sundur hina flóknu þræði – vandamálavæðing eða starfsþróun í skólum? og fjallaði m.a. um hvert vandamálið er í raun og veru, af hverju stórum hluta nemenda er vísað í sérkennslu eða sérstakan stuðning og hvað það er sem almenna kennslan ræður ekki við og vísar þess vegna nemendum frá sér í sífellu?

Einblínum um of á vandamál nemenda

Í máli Eddu kom m.a. fram að í stað þess að horfa á skólann, kennslustofuna og kennslufræðina út frá meginreglunni um gæðamenntun fyrir alla, er einblínt um of vandamál sem leysa má með sérkennslu og greiningum. Skóla án aðgreiningar er fyrst og fremst ætlað að draga úr hvers kyns ójöfnuði sem kemur fram í útlokun eða mismunun minnihlutahópa vegna bakgrunns þeirra, s.s. vegna tungumáls, félagslegra eða menningarlegra aðstæðna, áætlaðrar getu eða fötlunar, svo að dæmi séu nefnd.Stefnan um skóla sem er fyrir öll börn og ungmenni, án aðgreiningar kallar þannig, að sögn Eddu á, að við hættum að einblína á nemendur sem vandamál sem við leysum með sérkennslu og greiningum og horfum þess í stað á skólann, kennslustofuna og kennslufræðina með það fyrir augum að greina hverju þurfi að breyta til að taka á móti fjölbreyttum nemendahópi og undirbúa hann undir óráðna framtíð. 

Gæðamenntun fyrir alla alls staðar, en ekki suma sums staðar

Skóli án aðgreiningar gerir þannig ráð fyrir fjölbreyttum nemendahópi sem starfar á jafnræðisgrunni innan skólans. Í stað sértækra aðgerða eða sérstöðu einstakra nemenda, byggir þessi nálgun á því að uppræta með heildtækri hönnun náms bæði ójöfnuð og flokkunarkerfi sem greina nemendur að í mismunandi hópa.

Einnig benti Edda á að aðferðafræðilega styður dreifð forysta við skóla án aðgreiningar og að hlúa verði að leiðtogum innan skólakerfisins svo að þeir geti dregið þann vagn að innleiða nauðsynlegar breytingar á starfsháttum og viðhorfum. Þá þurfi að skoða betur og deila merkingunni sem felist í skóla án aðgreiningar og velta því stöðugt upp hvort starfsemi skólans, nám og kennsla skili því sem til er ætlast. Nám án aðgreingar sé lifandi ferli í stöðugri framvindu og styðjist sem slíkt við forystu, samvinnu og ábyrgð allra sem að því koma.

Meginniðurstaða Eddu var svo sú að til þess að gera menntun án aðgreininar að veruleika þarf að endurskoða stoðþjónustuna, aðlaga skólastarf að nemendum – ekki öfugt, treysta kennurunum, efla samstarf og skilgreina ábyrgð.

Greiningar sem ávísun á fjármagn

Hermína og Birna María töldu að núverandi stöðu mætti í stórum dráttum rekja til þess að sérfræðiþekking kennara sé ekki viðurkennd innan skólakerfisins. Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa væri kerfi sem þróast hafi innan skólakerfisins í þeim tilgangi að öðlast fjármagn. Hefði sú þróun átt sér stað á kostnað skólaþjónustu og skólamiðaðrar ráðgjafar, m.a. þar sem greiðslufyrirkomulag hvetti foreldra, skóla og sveitarfélög til að leggja áherslu á greiningar sem ávísun á fjármagn.

Kerfið vinni þannig í raun gegn því að kennarar efli fagþekkingu sína, sem hindrar þá svo aftur í að takast á við fjölbreyttar þarfir nemenda. Áskorunin sé í raun tekin af kennurum með því að vísa nemendum út úr skólastofunni eða jafnvel skólakerfinu til sérfræðinga sem skilgreina vandann og fást við hann án aðkomu kennara.

Mælast Hermína og Birna María til þess að kennslufræðileg ráðgjöf verði efld svo að kennurum og nemendum verði gert kleift að vinna úr málum í sjálfu námsumhverfinu. Með skólamiðaðri ráðgjöf megi byggja upp sérfræðiþekkingu hjá kennurum, sem haldist innan skólans og nýtist þannig öllum nemendum.

Meiri gæðamenntun – minni þörf á sérstökum úrræðum

Varðandi spuringuna um sjúkdómavæðingu skólakerfisins stikluðu Hermína og Birna María á áhugaverðum rannsóknum norska skólamannsins Peders Haug á sambandinu sem er á milli almennrar kennslu og sérkennslu og lýsir sér þannig að því betri sem almenna kennslan er þeim mun minni verður þörfin á sérkennslu. Um þá stöðu að 26% fyrstu bekkinga þurfi sérkennslu hefur Peder Haug sagt, að á því geti aðeins verið sú skýring að almennri kennslu skorti gæði. Samsvarandi hlutfall í Noregi er um 4%.

Heildstæð sýn á aðstæður nemenda

Starfsþróun kennara og starfsefling getur á hinn bóginn ekki orðið til af sjálfu sér, ekki frekar en skóli án aðgreiningar. Hlutverk skólaþjónustu sé að styrkja faglegt skólastarf og starfsþróun. Afar brýnt sé því að stuðningur við starfsfólk og skólastarf fái aukið vægi hjá skólaþjónustu sveitarfélaga. Einnig verði að huga betur en nú er gert að eflingu innviða almenna skólastarfsins í samstarfi við háskólana í landinu.

Mynda verði jafnframt heildstæða sýn á aðstæður nemenda og til þess sé samstarfi allra aðila skólasamfélagsins nauðsynlegt að samhæfðu stuðningskerfi – ríkis, sveitarfélga, skólastjórnenda, kennara, annarra sérfræðinga, háskóla, heilsugæslu, fjölskyldusvið og áfram þar eftir götum. Í þessu felst, að skilgreina verður hlutverk, ábyrgð og framlag hvers og eins annars vegar og gera hins vegar heildstæða framkvæmdaáætlun sem tekur á  heistu þáttum eins og núverandi stöðu, markmiðum, björgum, starfshættum, tímaramma og viðmiðum um árangur og stöðugt mat.

Auk Eddu Óskarsdóttir, Hermínu Gunnþórsdóttur og Birnu Maríu B. Svanbjörsdóttur tóku til máls fyrir hádegi á skólaþingi sveitarfélaga Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ragnar S. Þorsteinsson, verkefnastjóri stýrihóps um eftirfylgni við úttektar Evrópomiðstöðvar á menntun án aðgreiningar, Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins og Þorgjörg Helga Vígfúsdóttir, námssálfræðingur.