23. mar. 2018

Prófspurningabanki Menntamálastofnunar opnaður

Úrskurðanefnd um upplýsingamál hefur heimilað aðgang að prófspurningum sem notaður eru í samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk grunnskóla.

Í því felst að endurskoða verður þróunarstarf vegna einstaklingsmiðaðra prófa.

Um er að ræða samræmd próf í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir haustin 2016 og 2017. Nemendur hafa fram að þessu haft aðgang prófniðurstöðum ásamt svokölluðum sýnisprófum, sem eru sambærileg þeim samræmdu prófum sem þeir þreyttu.

 

Starfshópur sem menntamálaráðuneytið skipaði nýlega vegna framtíðarstefnu um samræmd könnunarpróf, mun væntanlega einnig fjalla um fyrirkomulag einstaklingsmiðaðra prófa, að því er fram kemur í tilkynningu sem Menntamálastofnun hefur sent nemendum og foreldrum þeirra.

Aðdragandi málsins er sá að Menntamálastofnun synjaði beiðni um aðgang að prófspurningum, með vísan til einstaklingsmiðaðra próf. Þróun þeirra byggir á stórum banka af prófspurningum og því er ekki hægt að þróa slík próf ef semja þarf ný prófatriði fyrir hvern árgang.

Synjunin var kærð, en úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst hins vegar ekki á að tilfelli sem þessi falli undir undanþáguheimildir upplýsingalaga. Var Menntamálastofnun því gert að afhenda umrædd próf.

Þessi ákvörðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur engin áhrif á samræmd könnunarpróf í 9. bekk sem verða endurtekin í vor og í haust.  Fyrirlögn þeirra prófa mun standa fram til haustsins 2018 og ekki er unnt að opna þau próf fyrr en fyrirlögn er lokið.

Skolavefurinn.is