06. sep. 2017

Ný gæðaviðmið í mótun fyrir frístundastarf barna

  • Trompetleikari_litil

Frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum rennur út 15. september nk. en vonast eftir víðtæku samráða um málið.

Drög að markmiðum og viðmiðum fyrir frístundastarf 6 til 9 ára barna hafa nú verið í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins um nokkurra mánaða skeið.

Á síðasta ári samþykkti Alþingi breytingar á grunnskólalögum, sem fólu mennta- og menningarmálaráðuneyti að gefa auk annars út gæðaviðmið fyrir frístundastarf barna í yngri bekkjum grunnskóla, að höfðu samráði við samband sveitarfélaga.

Í framhaldi af því var settur á fót starfshópur sem skipaður var sérfræðingum hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Verkefnisstjóri var Ragnar Þorsteinsson, fyrrverandi sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Trompetleikari_litilStarfshópurinn kallaði til samráðs breiðan hóp af fagfólki ásamt fulltrúum sveitarfélaga, foreldra og annarra haghafa. Einnig var leitað eftir framlagi frá Menntamálastofnun, Umboðsmanni barna, formanni Skólastjórafélags Íslands, formanni Samtaka sjálfstæðra skóla, stjórnendum á skólaskrifstofum (Grunni) og Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT), auk þess sem fulltrúar frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Heimili og skóla og Ungmennaráði Menntamálastofnunar áttu aðkomu að málinu.

Í júní sl. skilaði starfshópurinn svo af sér drögum til kynningar og opins samráðs sem fjalla um hlutverk og leiðarljós frístundaheimila ásamt markmiðakorti í fjórum víddum.

Starfshópurinn hefur lagt mikla áherslu á víðtækt samstarf og sátt í samfélaginu um setningu metnaðarfullra markmiða og viðmiða fyrir frístundastarf sem varða veginn til framtíðar fyrir þessa lögbundnu grunnþjónustu sveitarfélaga án þess þó að vera íþyngjandi fyrir sveitarfélög.

Allar nánari upplýsingar gefur Ragnar Þorsteinsson, verkefnisstjóri (ragnarsteinthor@gmail.com). Ef aðilar óska eftir kynningu á verkefninu á samráðstíma þá skal hafa samband við verkefnisstjóra.  Þess er óskað að athugasemdir og ábendingar verði sendar á ofangreint netfang verkefnisstjóra eða á netfang formanns starfshópsins Guðna Olgeirssonar (gudni.olgeirsson@mrn.is) eða á postur@mrn.is. Vinsamlega setja í efnislínu "Markmið og viðmið fyrir starf frístundaheimila".

Eru allir sem áhuga hafa hvattir til að skila athugasemdum fyrir 15. september nk.